Beint í efni

Vinnslukostnaður getur varla annað en hækkað á næstunni

15.02.2011

Forsvarsmenn Auðhumlu, samvinnufélags kúabænda sem á MS, leggja brátt upp í árlega deildarfundi en sá fyrsti verður haldinn í Skaftárdeild, á Hótel Kirkjubæjarklaustri 21. febrúar nk. Nánari niðurröðun deildarfundanna má sjá hér neðst í fréttinni. Að sögn Egils Sigurðssonar, stjórnarformanns Auðhumlu og MS, verður á fundunum farið yfir rekstur félaganna og rekstrarniðurstöður ársins 2010 birtar. Þá verður farið yfir helstu atriði sem snúa að sölu og markaðsstarfsemi og m.a. um útflutningsmál:  Við ætlum að kynna á fundunum stöðuna eins og hún er með útflutningsmálin, afkomuna og þá möguleika sem við sjáum á þeim vettvangi sem við reynum að leggja kalt mat á og hvorki of- né vanmeta, sagði Egill í viðtali við naut.is.
 
Fram kom í máli hans að á fundunum verður einnig farið yfir vinnslu- og dreifingarkostnað mjólkur, sem hefur ekki hækkað í átján mánuði þrátt fyrir stöðugar hækkanir á öllum rekstrakostnaði. Þessu hafi verið mætt með sparnaði og hagræðingu á öllum sviðum sem hafi, auk

hagræðingar í kjölfar sameiningar á mjólkuriðnaðinum, skilað sem nemur tveimur milljörðum á ársgrunni. Þó þurfi að gera enn betur sagði Egill og bætti við á fundunum munun fara sérstaklega yfir flutningskostnað og þá möguleika sem við sjáum á sparnaði við þann þátt. Við óskum eftir góðu samstarfi við framleiðendur um að lágmarka kostnað í söfnun á mjólk og þar er bæði verið að tala um aðgengi að mjólkurhúsum sem og breytingar á tímum sem mjólkin verður sótt.
 
Egill sagði að einnig verði rætt um verðlagsmálin á deildarfundunum en lágmarksverð til bænda hækkaði nú 1. febrúar sl. og hafi sú hækkun verið í lágmarki miðað væntingar og þörf. Það er ljóst að það mun reyna á verðlagningarkerfi mjólkur á næstu mánuðum enda sjáum við fram á gríðarlegar hækkanir á flestum liðum búrekstrarins. Við það bætist að vinnslu og dreifingarkostnaður getur ekki annað en hækkað, enda verið óbreyttur síðan 1. ágúst árið 2009. Þessi mál og fleiri munum við ræða og ég vil endilega hvetja kúabændur til þess að mæta á deildarfundina og ræða stöðu greinarinar, sagði Egill að lokum í viðtali við naut.is
 
Deildarfundir Auðhumlu 2011 verða sem hér segir:
21. febrúar í Skaftárdeild. Fundurinn verður haldinn á Hótel Kirkjubæjarklaustri og hefst kl. 13:30


21. febrúar í Austur-Skaftafellsdeild. Fundurinn verður haldinn að Smyrlabjörgum og hefst kl. 20:30

22. febrúar í Mýrdalsdeild, Eyjafjalladeild, Laneyjadeild, Fljótshlíðar-, Hvols- og Rangárvalladeild, Holta-, Landmanna-, Ása-, og Djúpárdeild. Fundurinn verður haldinn á hótel Hvolsvelli og hefst kl. 13:30

23. febrúar í Flóa- og Ölfusdeild. Fundurinn verður haldinn í fundarsal MS á Selfossi og hefst kl. 13:30

24. febrúar í Hvalfjarðardeild, Snæfellsnesdeild og Mýrarsýslu- og Borgarfjarðardeild. Fundurinn verður haldinn í Hótel Borgarnesi og hefst kl. 13:00

24. febrúar í Uppsveitadeild. Fundurinn verður haldinn í Hótel Flúðum og hefst kl. 20:30

25. febrúar í Austur-Húnaþingsdeild og Vestur- Húnaþingsdeild. Fundurinn verður haldinn í Félagsheimilinu Víðihlíð og hefst kl. 13:30

28. febrúar í Breiðafjarðardeild. Fundurinn verður haldinn í Skriðulandi, Saurbæ í Dölum og hefst kl. 13:30

1. mars í Austurlandsdeild. Fundurinn verður haldinn í Gistihúsinu Egilsstöðum og hefst kl. 13:30

3. mars í Norðausturdeild. Fundurinn verður haldinn í Sveinbjarnargerði og hfst kl. 11:00

4. mars í Breiðafjarðardeild. Fundurinn verður haldinn í Hótel Ísafirði og hefst kl. 13:00