Beint í efni

Vinna við mjaltir og afköst mjaltaþjóna

06.06.2007

Þegar greinargerð LBHÍ um áhrif á arðsemi kúabúa að framleiða mjólk með nýju kúakyni hér á landi, var lögð fyrir aðalfund LK í apríl sl. kom fram nokkur gagnrýni á aðferðafræði við mat á vinnu við mjaltir. Einnig komu fram ábendingar um að rétt væri að meta áhrif nýs kúakyns á afköst mjaltaþjóna. Fljótlega að fundi loknum var farið í viðræður við LBHÍ vegna þessarar gagnrýni og var ákveðið að bregðast við henni.

Til þess að staðreyna þær tölur um vinnu við mjaltir sem notaðar voru, er verið að safna gögnum úr tölvustýrðum mjaltabásum sem eru í notkun. Teknar eru upplýsingar úr kerfunum um lengd mjaltatíma, fjölda mjaltamanna og kúa sem mjólkaðar eru, auk samanlagðrar málnytar kúnna á búinu. Þess utan eru nokkur önnur atriði skráð, t.d. hversu margar kýr þurfa sérstaka meðferð og tefja mjaltir af þeim sökum, hversu margar þurfi að reka inn í básinn o.s.frv. Búið er að safna gögnum af 9 búum í Eyjafirði og er ætlunin að safna gögnum af 6 búum til viðbótar, þar og í Borgarfirði. Hér verður til mikilvægt gagnasafn um vinnu við þennan stóra verklið sem mjaltir eru, en það verður að segjast að upplýsingar um vinnuframlag í íslenskri mjólkurframleiðslu er til baga fátæklegt.

Til að kanna afköst mjaltaþjóna við íslenskar aðstæður verður farið á 13 bú á Suðurlandi. Aflað verður m.a. upplýsinga um fjölda mjalta og magn mjólkur á sólarhring, nýtingu þjónsins o.s.frv. Þessar upplýsingar verða síðan bornar saman við sambærilegar upplýsingar sem aflað hefur verið erlendis.

Umsjónarmaður með gagnasöfnuninni er Elin Grethardsdóttir, meistaranemi í nautgriparækt við Landbúnaðarháskóla Íslands.