
Viltu auka afköst mjaltaþjónsins?
24.06.2017
Ný rannsókn*, sem greint var frá í tímaritinu Journal of Dairy Science, sýnir að með því að breyta því hvenær mjaltaþjónninn tekur af kúnni þ.e. hverjum júgurhluta fyrir sig má auka verulega afköstin við mjaltir. Rannsóknin var gerð á 30 mjólkurkúm í fimm mismunandi hópum og var hver hópur settur saman af sex kúm sem áttu stöðu á mjaltaskeiði, nyt eða annað slíkt sameiginlegt. Mjaltaþjónninn var svo stillur á að taka af hverjum spena við 60 gr/mínútu mjólkurrennsli, við 300 gr/mínútu mjólkurrennsli og einnig við 480 gr/mínútu mjólkurrennsli.
Þeir vísindamenn sem stóðu að rannsókninni skoðuðu svo sérstaklega hvort þessir þættir hér að ofan hefðu einhver áhrif á júgurheilbrigði, mjaltatíma, nyt kúnna, hve mikið væri eftir í kúnum, efnasamsetningu mjólkurinnar og áhrif á frjálsar fitusýrur. Niðurstöðurnar eru áhugaverðar, og koma vonandi ekki öllum á óvart, enda sýna þær að það er hægt að stytta verulega mjaltatíma kúnna með því að taka fyrr af kúnum án þess að það hafi nokkur áhrif á júgurheilbrigði, efnasamsetningu mjólkurinnar eða nyt kúnna.
Um leið og mjaltatíminn er styttur með þessum hætti má auka afköst mjaltaþjónanna all nokkuð og þar með nýta þá betur. Til þess að ná bestum áhrifum af aðgerð sem þessari, þ.e. að hækka flæðið við atöku, er mikilvægt að hafa hugfast að örva kúna sem best í upphafi mjaltanna og passa að tíminn við spenaþvott eða spenaburstun sé nægur.
*Krawczel ofl., 2017. Milking time and risk of over-milking can be decreased with early teat cup removal based on udder quarter milk flow without loss in milk yield. Er í prentun hjá JDS/SS.