Beint í efni

Vill ekki mjólk úr klónuðum kúm

10.08.2010

Breska afurðastöðin Dairy Crest hefur nú sent út, til allra kúabænda sem leggja inn mjólk hjá fyrirtækinu, yfirlýsingu þess efnis að bændurnir ábyrgist að mjólkin frá þeim komi ekki frá kúm sem eru klónaðar eða eigi ættir að rekja til klónaðra gripa. Kemur þetta útspil fyrirtækisins í kjölfar mikillar fjölmiðlaumræðu undanfarna daga um klónaða nautgripi í Bretlandi. Með þessu móti vill fyrirtækið tryggja neytendum öruggar upplýsingar um uppruna mjólkurvaranna, en Dairy Crest er með stærstu afurðastöðvum Evrópu og tekur árlega á móti

2,4 milljörðum lítrum af mjólk.

 

Í ljós hefur komið að í Bretlandi eru nú yfir 100 nautgripir sem eiga ættir að rekja til bandarískrar verðlaunakýr sem var klónuð. Breska matvælaeftirlitið hefur gefið út yfirlýsingu um að neytendum stafi engin hætta af neyslu kjöts eða mjólkurvara frá klónuðum gripum, en þrátt fyrir það er þungt hljóð í neytendum varðandi málið – amk. í fjölmiðlum.

 

Í raun er öllum breskum bændum heimilt að nýta klónaða gripi í framleiðslu sinni, en þeir verða þó að fá sérstakt leyfi til slíkra nota.