Beint í efni

Vilja innflutning á erfðaefni!

23.03.2013

Aðalfundarfulltrúar á aðalfundi LK á Egilsstöðum hafa nú ályktað um nautakjötsmál og áréttað þá brýnu þörf sem er til staðar varðandi endurnýjun á erfðaefni holdanautastofnanna sem hér á landi eru. Ljóst er að ef stunda eigi holdanautaræktun þá þurfi að koma til innflutnings á nýju erfðaefni erlendis frá. Vakin er athygli á því að hér er ekki rætt um mjólkurkúakyn, enda liggur afstaða kúabænda fyrir í því máli.

 

Öðru máli gegnir um afstöðuna til innflutnings á erfðaefni fyrir holdanautarætktun og því leggur fundurinn til að þegar verði hafist handa við eftirfarandi:

 

• Kanna hvernig standa ætti að innflutningi þannig að hann yrði ásættanlegur með tilliti til smitvarna en þó hóflega kostnaðarsamur.

• Áætla ábata og kostnað við innflutning svo hægt sé að meta hvort hann er yfir höfuð skynsamlegur.

• Gera áætlun um framtíðarskipulag ræktunar holdanautastofnsins, m.a. áætla hversu títt þurfi að flytja inn erfðaefni í framtíðinni.

• Gert verði átak til að efla fagmennsku í greininni, s.s. með skýrsluhaldi og öflugri leiðbeiningaþjónustu til að ná betri arðsemi út úr greininni.

 /SS.