Beint í efni

VikingGenetiks stendur í stórræðum

04.07.2012

Norræna kynbótafélag kúabændanna á hinum Norðurlöndunum, VikingGenetiks, hefur á undanförnum árum náð afar góðum árangri á heimsmarkaðinum með kynbótastarf sitt. Ástæðan felst m.a. í miklum áherslum á heilsufar og endingu sem skilar aukinni sölu um allan heim, meira að segja á Holstein-Friesian kyninu sem sæði er til sölu úr í svotil öllum löndum heimsins.

 

Nú hefur þeim svo tekist að komast inn á kínverska markaðinn með því að mæta öllum sérkröfum þarlendra. Þannig standa núna fjögur naut í einangrun í sérstakri aðstöðu í dönsku fjósi, sem uppfyllir allar kínverskar kröfur og eftir að hafa loks komist í gegnum öll próf og heilbrigðisskoðun hófst vinna við að safna sæði úr þessum nautum nú í byrjun síðasta mánaðar.

 

Fyrsta pöntunin hljóðar upp á 20 þúsund sæðisskammta af kyngreindu sæði, en VikingGenetiks áætlar að það taki um 20 vikur að framleiða þetta magn kyngreinds sæðis og að kínverski markaðurinn muni í framtíðinni standa undir 50% af allri sölu VikingGenetiks á kyngreindu sæði.

 

Það eru úrvalsnautin D Etoto, D Opman, D Obsess og D Skotte sem munu halda uppi heiðri norrænna nauta við þessa framleiðslu. Þeir sem fylgjast með kynbótastarfi í nautgriparækt þekkta etv. best til D Obsess en það naut er undan gríðarlega góðri kú frá Finn Sørensen (Kalbygård við Låsby í Danmörku). Kýr þessi mjólkaði 15.100 kíló að jafnaði fyrstu þrjú mjaltaskeiðin með 540 kg mjólkurfitu og 483 kg protein/SS.