Viking Genetics og Geno auka samvinnuna
15.09.2012
Nýverið var gengið frá samkomulagi á milli kynbótafélaganna Viking Genetics (Finnlandi, Svíþjóð og Danmörku) og Geno (Noregi) um að auka enn frekar samstarf á sviði kynbóta og kynbótaframfara. Samstarfið er eðlilega á milli hinna norrænu rauðu kynja, enda er Geno ekki með svartskjöldótta kynið.
Hið eflda samstarf er eðlilegt framhald af samvinnu félaganna sem hófst árið 2010 og skilaði aukinni framför meðal hinna rauðu kynja. Með samstarfinu verða allir hinir rauðu kúastofnar samtvinnaðir og með því fæst það mikil stofnstærð að möguleikar verða á miklum framförum í kynbótum á grundvelli greininga á erfðamengi gripanna. Undanfarin misseri hefur þessi aðferð verið tekin upp víða í hinum stærri stofnum en þessi aðferð er talin geta aukið kynbótaframfarir um tugi prósenta samanborið við núverandi ræktunarskipulag og er talin vera sambærileg bylting og tilkoma sæðinga var á sínum tíma.
Samhliða hafa félögin tekið upp sameiginlegar kynbótaáherslur varðandi val gripa og eru áherslurnar því nú eins hvað snertir eiginleika kúnna og ungnautanna. Samandregið má í raun segja að öll Norðurlöndin, nema Ísland að sjálfsögðu, hafi nú eitt sameiginlegt ræktunarmarkmið í nautgriparækt, sem mun vafalítið reynast kúabændum landanna mikill fengur þegar frá líður og styrkja samkeppnisstöðu þeirra/SS.