Viking Genetics gerir stóran sölusamning í Kína
04.01.2012
Norræna kynbótafyrirtækið Viking Genetics hefur nú gert stóran sölusamning um sölu á nautasæði til Kína. Alls verða sendir 100 þúsund skammtar til Kína næsta ár en helstu skýringar á eftirspurn kínverskra kúabænda í sæði frá Norðurlöndum eru hinar einstöku heilbrigðisupplýsingar sem til eru um þá gripi sem um ræðir.
Kína er afar góður markaður fyrir Viking Genetics enda mikill vöxtur þar í mjólkurframleiðslunni og hvert kúabú stórt og því miklir hagsmunir í sölu á sæði. Sem dæmi um stærð búanna þá byrjaði markaðsstarfið í Kína fyrir hálfgerða tilviljun þegar eitt bú pantaði 10 þúsund strá á einu bretti með einum tölvupósti! Í kjölfarið fór boltinn að rúlla og nú rétt rúmu ári síðar er magnið búið að tífaldast og sér ekki fyrir endann á aukningunni. Nú þegar flytur fyrirtækið 35% alls sæðis út fyrir Norðurlöndin og hefur náð að skapa sér afar sterka stöðu á heimsvísu. Stærstu kaupendurnir í dag eru í Bandaríkjunum og Kanada/SS.