Beint í efni

Viðurkenningarhafar Landssambands kúabænda 2008

09.04.2008

Árshátíð LK var þetta árið haldin á Hótel Selfossi laugardagskvöldið 5. apríl sl. Að þessu sinni voru gestir árshátíðarinnar um 240 talsins og fór hún afar vel fram, að vanda. Á árshátíðinni var eftirtöldum einstaklingum veitt viðurkenning LK árið 2008:

1. Hans Pétur Diðriksson og Karitas Þórný Hreinsdóttir
2. Vilhjálmur Diðriksson og Ágústa Ólöf Gunnarsdóttir

Á Helgavatni í Þverárhlíð er rekið glæsilegt kúabú, félagsrekstur fyrrnefndra hjóna. Það eitt er svo sem verðlauna vert, en meira réði að segja má að á Helgvatni hafði verið rekinn stjórnmálaskóli sl. ár. Þangað var þingmönnum og þingmannsefnum boðið til að þiggja fræðslu á vettvangi um nautgriparæktina, og að sjálfsögðu veitingar. Óvenjulegt framtak, lofsvert og til eftirbreytni.

 

3. Ólafur Eggertsson og Guðný J. Valberg

Að Þorvaldseyri undir Eyjafjöllum er bæjarstæði fyrir höfðingja. Ólafur og Guðný eru því réttum stað. Þorvaldseyri hefur um langt árabil verið stórbú í fremstu röð, bú þar sem kornrækt og önnur jarðrækt hefur þróast svo eftir er tekið, bú þar sem rafmagn er framleitt, bú sem er snyrtilegt í besta lagi og líklega eru til fleiri myndir af Þorvaldseyri en nokkru öðru býli í landinu enda bakgrunnurinn og umgjörðin öll við hæfi fyrir myndarlega byggingar og meðfylgjandi ræktun. Ólafur og Guðný hafa tekið á móti miklum fjölda gesta og þannig verið góðir kynningarfulltrúar íslensks landbúnaðar. Nú stunda þau samrekstur með afkomendum sínum.


4. Páll Lýðsson og Elínborg Guðmundsdóttir, Litlu-Sandvík

Í bókinni ,,Æviskrár samtíðarmanna’’ sem út kom 1983 er getið um 16 trúnaðarstörf sem Páll Lýðsson hafði gengt eða gengdi þá, en þá var hann rétt að byrja í félagsmálum. Páll hefur sem sagt verið einn af trúnaðaðarmönnum sunnlenskra bænda síðustu áratugi. Þá hefur Páll verið afar mikilvirkur sem sagnfræðingur og skrásetjari. Á hann góðan þátt í því hversu vel hefur tekist til um varðveislu á íslenskri/sunnlenskri búnaðarsögu á tuttugustu öld. Þau hafa nú afhent búreksturinn til afkomenda sinna.

 

5. Guðmundur Þorsteinsson og Helga Bjarnadóttir, Skálpastöðum 
 Guðmundur Þorsteinsson var einn af forgöngumönnum þess að Landssamband kúabænda var stofnað og sat í stjórn þess frá upphafi til ársins 1999. Rökfastur baráttumaður fyrir bættum kjörum kúabænda. Var trúnaðarmaður mjólkurframleiðenda í afurðasölufyrirtækjum þeirra um áratuga skeið. Eindregnari og ódeigari talsmaður sameiningar í mjólkuriðnaði en flestir aðrir.

 

F.v. Hans Pétur Diðriksson, Karítas Þórný Hreinsdóttir, Ágústa Ólöf Gunnarsdóttir, Vilhjálmur Diðriksson, Ólafur Eggertsson, Guðný J. Valberg, Páll Lýðsson og Elínborg Guðmundsdóttir
 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Páll Lýðsson lést í bílslysi í gærmorgun, á 72. aldursári. Landssamband kúabænda vottar fjölskyldu hans innilegustu samúð.