Beint í efni

Viðurkenningar LK árið 2006

17.04.2006

Jón Viðar Jónmundsson er Svarfdælingur að uppruna. Eftir nám hóf hann störf hjá Rala, Bændaskólann á Hvanneyri og Búnaðarfélagi Íslands.  Má segja um hann fremur en nokkurn annan núlifandi mann að hann hafi helgað sig störfum fyrir íslenska búfjárækt, kennslu í búfjárrækt og erfðafræði, uppgjöri afurðaskýrslna og búfjárdómum. Jón býr yfir fágætri þekkingu um íslenska bændur, búfé þeirra og búskap. Landssamband kúabænda vill á tuttugu ára afmæli sínu þakka Jóni Viðari Jónmundssyni frábært starf í þágu íslenskrar nautgriparæktar.

Snorri Sigurðsson hóf starf hjá Bændaskólanum á Hvanneyri þegar hann kom frá námi. Í grófum dráttum má segja að starfsvettvangur hans hafi verið nautgriparækt þar til hann tók við núverandi starfi um síðustu áramót. Snorri er atorkusamur í betra lagi og eitt af því sem hann hefur haft sem aukastarf um árabil er að undirbúa og vera fararstjóri í hópferðum á Agromek landbúnaðarsýninguna í Danmörku og raunar fleiri bændaferðum. Þetta hefur mörgum orðið ómetanlegur gluggi að þeirri þróun sem á sér stað hjá Dönum, þessari nágrannaþjóð okkar sem stendur hvað fremst í nautgriparækt í Evrópu.
 Fyrir þessa fararstjórn vill Landssamband kúabænda kúabænda þakka og veita á tuttugu ára afmæli sambandsins Snorra Sigurðssyni viðurkenningu.

 

Kristján Gunnarsson  hóf störf hjá Norðurmjólk, þá Mjólkursamlagi KEA, fyrir 25 árum.
Hann er upphaflega menntaður rafvirki en hefur sótt fleiri  námskeið á vegum Norðurmjólkur en tölu verður á komið og einnig hefur hann sótt landbúnaðarsýningar í Danmörku.
Kristján hefur gegnum tíðina náð afar góðu sambandi við mjólkurframleiðendur enda unnið þeim vel og verið góður málsvari þeirra. Jafnframt hefur hann skrifað talsvert um þau faglegu mál sem snúa að mjólkurgæðum.
Á tuttugu ára afmæli sínu vill Landssamband kúabænda kúabænda þakka gott og faglegt starf Kristjáns Gunnarssonar og veita honum viðurkenningu.