Viðurkenning LK veitt kúabúi í Mývatnssveit
22.08.2001
Viðurkenning Landssambands kúabænda var veitt í gærkvöldi. Viðurkenningin var að þessu sinni veitt félagsbúinu í Baldursheimi í Mývatnssveit fyrir framúrskarandi afurðamiklar kýr og góðan árangur í mjólkurframleiðslu undanfarna áratugi.
Félagsbúið í Baldursheimi hefur á síðustu áratugum verið afurðahæsta bú landsins oftar en nokkurt annað bú og margoft sett Íslandsmet í þeim efnum. Þannig var það fyrsta búið sem náði 6.000 kg meðalnyt (árið 1983) og var félagsbúið einnig fyrsta bú landsins sem náði 7.000 kg meðalnyt(árið 1999). Þá hafa mörg naut komið frá búinu til framræktunar í íslenska kúastofninum.
Hjónin Þuríður Pétursdóttir og Gunnar Brynjarsson tóku við viðurkenningu Landssambands kúabænda fyrir hönd ábúenda í Baldursheimi.