Um BÍ
Búgreinadeildir
Málaflokkar
Til baka
Um Alifuglabændur
Upplýsingar
Kolefnisspor
Til baka
Til baka
Um Hross BÍ
Fræðsla
FHB
Til baka
Um NautBÍ
Upplýsingar
LK
Til baka
Sauðfjárbændur
Upplýsingar
Til baka
Starfið
Stjórnsýsla
Til baka

Viðtal við Ólaf og Sigurlaugu í Hraunkoti

23.01.2012

Í laugardagsblaði Morgunblaðsins er að finna ýtarlegt viðtal Helga Bjarnasonar við bændur í Hraunkoti í Vestur-Skaftafellssýslu, þau Ólaf Helgason og Sigurlaugu Jónsdóttur. Naut.is leyfir sér að birta viðtalið í heild sinni:

 

Líta inn í fjósið fyrir svefninn

»Ég enda daginn, áður en ég fer að sofa, á því að sópa frá kúnum og gefa þeim fóðurbæti – og athuga hvort allt er í standi,« segir Ólafur Helgason, bóndi í Hraunkoti í Landbroti. Kúabú þeirra Sigurlaugar Jónsdóttur er afar afurðagott þótt lítið sé. Ólafur og Sigurlaug eru með blandað bú, eins og algengt er í Skaftafellssýslu, um 200 vetrarfóðraðar kindur og 17-20 mjólkandi kýr. Hraunkotsbúið hefur verið mjög afurðahátt, samkvæmt skýrsluhaldi nautgriparæktarfélaganna síðustu árin. Í lok nóvember var það með hæstu meðalafurðir allra kúabúa landsins, með 8.340 kg mjólkur eftir hverja kú, og allt bendir til að búið verði í efsta sætinu í árslok þótt niðurstaðan verði ekki birt fyrr en í næstu viku.

3.000 kg yfir meðaltali
»Það er alltaf að hluta til heppni hvernig til tekst. Það hafa verið lítil veikindi hér undanfarin ár,« segir Ólafur hógvær þegar hann er spurður um galdurinn á bak við það að ná svona góðum árangri í framleiðslu. Sigurlaug bætir því við að hver gripur skipti meira máli á litlum búum en stórum, enginn gripur megi bregðast til að meðaltalið haldist hátt.
»Þetta snýst mikið um að koma sem mestu fóðri í gegnum skepnuna. Afurðirnar fara eftir því,« segir Ólafur og tekur um leið fram að ákveðin mörk séu á því hvað hagkvæmt sé að gera.
Það segir sig þó sjálft að hagkvæmt er að nýta skepnur og aðstöðu sem best. Meðalafurðir skýrslufærðra kúa yfir landið eru um 5.400 kg mjólkur og eru afurðirnar í Hraunkoti um 3.000 kg yfir því.
Ólafur segir mikilvægt að endurrækta túnin reglulega til þess að fá bestu mögulegu uppskeru. Nefnir hann að vel verkað vallarfoxgras sé besta fóðrið fyrir kýrnar og gæta þurfi þess að halda túnunum í rækt til að fá sem mest af því. »Ég reyni að slá á góðum tíma og hér er hefðbundinn rúllubaggaheyskapur,« segir Ólafur. Eins og margir aðrir bændur sendir hann heysýni til rannsóknar til að sjá efnasamsetningu þess og átta sig á því hvað þurfi að gefa með.
Kýrnar í Hraunkoti fá fóðurbæti með heyinu, eins og kýr á öðrum afurðaháum búum. Þriðjungur eða fjórðungur þess er heimafenginn því Ólafur ræktar bygg og hefur gert í þrjátíu ár. Úr því fæst úrvals fóður.
Hjónin neita því ekki að sú vinna sem lögð er í umhirðu kúnna skili sér. Þau fara yfirleitt í fjós fjórum sinnum á dag, til mjalta, gjafa og eftirlits. Kúnum er gefið hey þrisvar og kjarnfóður sömuleiðis þrisvar.
Óhagstætt að skipta sér
Hraunkotsbúið er langminnsta kúabúið í hópi afurðahæstu búa landsins og eitt af fáum sem ekki eru sérhæfð í mjólkurframleiðslu. Þar voru 16-17 kýr mjólkandi að meðaltali á síðasta ári, en meðaltalið yfir landið er tæplega 40 árskýr. Fjósið er fjörutíu ára gamalt og enginn róbót til að hjálpa til við mjaltirnar. »Þetta er óhagstætt, sérstaklega vegna vinnunnar. Það koma svo miklar tarnir í sauðfjárræktinni, vor og haust,« segir Ólafur. »Það þarf að vera inni í mörgum málum. Svo þarf að hafa húsnæði og aðra aðstöðu fyrir tvær gerðir af skepnum,« segir Sigurlaug. Þau bæta því við að blandað bú hafi einnig kosti. Þannig sé hægt að nýta fóðrið betur. Það fóður sem ekki er kýrgæft nýtist vel í féð. Þá nýtist útjörð og afréttur til sauðfjárbeitar.
Stærð kúabúsins helgast einfaldlega af stærð fjóssins. »Við fórum ekki út í að byggja nýtt og kaupa kvóta og við förum varla að skuldsetja okkur úr þessu. Svo er þetta eining sem hentar okkur ekki illa,« segir Sigurlaug.
Lausnin finnst í fjósinu
– Hvort mynduð þið velja nautgriparæktina eða sauðfjáræktina, ef þið væruð ung að hefja búskap?
»Ég hugsa að ég færi í nautgriparæktina,« segir Ólafur og bætir því við að hann hafi gaman af því að umgangast kýr. Þær séu rólyndar skepnur.
»Ég get ekki gert upp á milli,« segir Sigurlaug. »Það er mikil ró í fjósinu. Ef það hvílir eitthvað þungt á mér sem ég þarf að ákveða, eða kemst ekki áfram með í vinnunni, þá kemur lausnin oftast í fjósinu. Þar er heimspekilegt umhverfi.«

 

»Maður lítur lífið öðrum augum eftir þetta«


 Ekki urðu skakkaföll í búskapnum hjá Sigurlaugu og Ólafi í Hraunkoti vegna öskufalls í eldgosinu í Grímsvötnum í maí í fyrra. Náttúruhamfarnir voru þó mikil lífsreynsla fyrir þau, eins og aðra íbúa sýslunnar.
»Maður lítur lífið öðrum augum eftir þetta,« segir Sigurlaug. Þau tala um myrkrið sem grúfði yfir þegar öskufallið var sem mest, á sunnudeginum og mánudeginum. Þau segjast ekki hafa séð handa sinna skil, í bókstaflegri merkingu. »Ég ólst upp í Mýrdal og þar komu eldri menn ekki saman án þess að ræða um Kötlugosið 1918, ekki síst myrkrið í öskufallinu. Ég hugsaði með mér að þá hefði ekki verið rafmagn. Nú skil ég þá.«
Þau voru í fjósi á laugardagskvöldið þegar eldgosið byrjaði. Ekki kipptu þau sér mikið upp við það í upphafi enda hafa þau oft séð gos í Grímsvötnum. Sigurlaug segist reyndar fljótlega hafa áttað sig á því að gosið væri stærra en venjulega og meiri hætta á öskufalli.
Sauðburði var að mestu lokið í Hraunkoti og lambféð komið út á tún. Dóttir Sigurlaugar og Ólafs og tengdasonur voru að hjálpa þeim við sauðburðinn með þremur börnum sínum. »Þau yrðu innlyksa og tengdasonurinn hjálpaði okkur svo áfram eftir að dóttirin komst í burtu með börnin. Það var okkur mikils virði,« segir Sigurlaug.
Skjólgott er í Landbroti og fé var því hvergi á berangri í landi Hraunkots. Fjölskyldan náði svo fénu heim að húsum þegar rofaði til á sunnudeginum og gaf því hey og rennandi vatn.
Heyfengur varð þriðjungi minni síðasta sumar en venjulega. Ólafur rekur það fremur til kuldans í júní en öskufallsins.
En askan er alls staðar í umhverfinu og rýkur enn upp við viss veðurskilyrði. »Þegar við byrjuðum að slá í vor rauk svo upp úr grasinu að ég sá ekki aftur á rúlluvélina,« segir Ólafur.
Hann segir að ryk sé í heyinu en það sé ekki ólystugt og rannsóknir sýni að askan sé laus við flúor eða önnur óæskileg efni.
Áfallið sem margir bændur urðu fyrir þegar þeir gátu ekki sinnt skepnum sínum vegna öskufallsins situr enn í fólki. »Menn voru ekki undir þetta búnir og óttuðust að ársstarfið væri farið og afkoman af því. Það fór illa í marga,« segir Sigurlaug.

 

helgi@mbl.is