Viðhorfskönnun LK: Áherslur bænda varðandi kynbótastarfið
03.04.2013
Í viðhorfskönnun Landssambands kúabænda voru bændur beðnir að svara margvíslegum spurningum er varða kynbótastarf nautgriparæktarinnar. M.a. var spurt um hversu mikla eða litla áherslu ætti að leggja á ýmsar leiðir sem mættu vera til að styrkja stöðu íslenskrar mjólkurframleiðslu og var ein þeirra að nýta allar færar leiðir til að auka erfðaframfarir í íslenska kúastofninum. Svöruðu 65% bænda því til að á hana ætti að leggja frekar eða mjög mikla áherslu. Eins og oft áður var talsverður munur á viðhorfum bænda eftir bústærð; 47% bænda með minna en 100 þús ltr. greiðslumark vildu leggja mikla eða mjög mikla áherslu á að auka erfðaframfarir, á meðan 94% bænda með meira en 400 þús. ltra greiðslumark voru þeirrar skoðunar.
Þegar spurt var hvernig bændur teldu helst koma til greina að hraða erfðaframförum, svöruðu 60% bænda að nýta ætti allar færar leiðir við framræktun íslenska stofnsins án innblöndunar erfðaefnis. Hér var einnig mjög mikill munur á viðhorfum eftir bústærð; 82% bænda með innan við 100 þús. ltr greiðslumark vildi enga innblöndun, á meðan rúmur þriðjungur bænda með 3-400 þús ltr greiðslumark og 12% bænda með meira en 400 þús ltr greiðslumark voru sömu skoðunar.
Varðandi aðrar leiðir vildu tæp 9% bænda gera samanburðartilraun á íslenskum kúm og erlendum, um 11% vildu innskot erfðaefnis í íslenska stofninn úr völdu erlendu kúakyni, tæp 5% vildu taka upp skipulagða blendingsrækt og rúm 13% vildu fara róttækustu leiðina; að flytja markvisst inn erfðaefni til kynbóta í samræmi við gildandi ræktunarmarkmið á hverjum tíma.
Í síðast nefndu leiðinni var mestur munur á viðhorfum eftir bústærð; hana vildu fara tæp 2% bænda með innan við 100 þús ltr, um 9% bænda með 100-199 þús ltr, tæplega 17% bænda með 200-299 þús ltr, um 27% bænda með 300-399 þús ltr greiðslumark og nærri helmingur bænda, 47%, með meira en 400 þúsund lítra greiðslumark vildi flytja markvisst inn erfðaefni í samræmi við gildandi ræktunarmarkmið.
Bændur voru einnig spurðir um hvort þeir notuðu heimanaut og þá hvernig, þannig að hægt var að merkja við fleiri en einn möguleika. Tæplega 60% bænda sögðust nota heimanaut á kvígur og 7% nota þau á kýrnar. Rúmlega þriðjungur bænda notar þau á kýr og kvígur sem ekki halda við sæðingum. Einungis 16% bænda sögðust ekki nota heimanaut. Notkun heimanauta á kvígur virðist fara heldur minnkandi með vaxandi bústærð, sem kemur heldur á óvart. Rúm 60% búa undir 200 þús ltr nota heimanautin á kvígurnar, á meðan rúmlega 50% búa á bilinu 300-399 þús lítra og um 42% búa með meira en 400 þús lítra greiðslumark nota heimanaut á kvígur. Rúm 20% minnstu og stærstu búanna sögðust ekki nota heimanaut yfir höfuð.
Þegar bændur voru spurðir af hverju þeir notuðu heimanaut, svöruðu rúm 57% þeirra að það væri þægindanna vegna. Rúm 22% sögðu ástæðuna vera slaka aðstöðu til sæðinga og rúmur fjórðungur vegna vandamála við beiðslisgreiningu eða frjósemisvandamála. Um 8% bænda fundust sæðingarnar vera of dýrar eða þá að sæðinganautin uppfylltu ekki kröfur þeirra. Um 5% bænda voru ósáttir við gildandi ræktunarmarkmið. Um 16% bænda nefndu ýmsar aðrar leiðir; kvígur væru sæddar einu sinni og nauti síðan sleppt í hópinn, að kvígurnar væri í öðru húsnæði en mjólkurkýrnar, að þær héldu illa við sæðingum og til að viðhalda litafjölbreytni. Einn bóndi sagðist nota heimanaut af því að frjótæknirinn væri svo fúll. Í þessum lið var hægt að merkja við fleiri en einn möguleika.
Bændur voru einnig spurðir hversu mikla áherslu þeir vildu leggja á að þeim stæði til boða kyngreint sæði. Þar skiptust bændur nokkurn veginn í tvo jafn stóra hópa; 40,4% þeirra vildu leggja á það litla áherslu á meðan 43% bænda vildu leggja á það mikla áherslu. Munur á viðhorfum var talsverður eftir bústærð, um þriðjungur bænda á minnstu búunum vildi leggja mikla áherslu á að fá kyngreint sæði, um helmingur bænda á búum með 200-299 þús ltr greiðslumark og yfir 80% bænda á stærstu búunum.
Þegar bændur voru spurðir til hvers þeir myndu nota kyngreint sæði, svöruðu rúmlega 60% bænda að þeir myndu nýta það til að fá fleiri kvígur til mjólkurframleiðslu; að geta endurnýjað hraðar en þeir gera í dag. Um 40% vildu nýta það til að búa til kynbótagripi, tæp 16% til að fá holdablendingskálfa og svipað hlutfall vildi nýta kyngreint sæði til að tryggja að 1. kálfs kvígur eignuðust kvígukálfa. Hér var einnig hægt að merkja við fleiri en einn möguleika.
Bændur voru einnig spurðir hvernig standa ætti að rekstri kúasæðinga í framtíðinni. Rúm 57% svöruðu því að sá rekstur ætti að vera með svipuðu sniði og í dag. Hér bar svo við að talsverður munur var á viðhorfum bænda eftir búsetu; 77% bænda á Suðurlandi vilja hafa óbreytt snið á rekstri sæðinga, á meðan einugis 13% bænda á Austurlandi eru þeirrar skoðunar. Bændur í þeim landsfjórðungi eru einnig áhugasamastir um að sameina rekstur sæðinganna og Nautastöðvarinnar, rúmlega helmingur bænda vill slíka sameiningu, á meðan tæp 15% bænda í heild er þeirrar skoðunar. Um 11% bænda vildu auka samvinnu þeirra aðila sem sjá um sæðingarnar í dag, tæp 9% vildu að bændum yrði gert að sæða sjálfir og 8% að fleiri aðilar, t.d. dýralæknar, ættu þess kost að veita þessa þjónustu.
Þegar spurt var um hvernig bændur teldu að rekstri Nautastöðvarinnar væri best komið í framtíðinni, svöruðu tæp 73% þeirra að hann ætti að vera með óbreyttu sniði; að hún verði áfram rekin á ábyrgð BÍ og að æðsta vald í málefnum hennar verði hjá Búnaðarþingi. 24% bænda vildu að kúabændur sjálfir tækju yfir stjórnun og ábyrgð á rekstri stöðvarinnar. Áberandi hærra hlutfall kúabænda á Norðausturlandi, 36%, var þeirrar skoðunar að stöðin ætti að vera undir stjórn kúabænda. Þá eykst hlutfall þess viðhorfs með aukinni bústærð. ´
Áfram verður haldið að gera grein fyrir niðurstöðum viðhorfskönnunar LK hér á naut.is næstu daga./BHB