Beint í efni

Viðhorfskönnun: Fjárfestingaáform snúa að uppeldisaðstöðu

26.03.2013

Í viðhorfskönnun LK voru bændur m.a. spurðir út í áform þeirra um fjárfestingar í framleiðsluaðstöðu og búnaði á næstu 10 árum. Þess ber að geta að gefinn var kostur á að merkja við fleira en einn möguleika. 37% svarenda hyggja á breytingar og/eða uppbyggingu á uppeldisaðstöðu fyrir geldneyti. Þessi niðurstaða kemur ekki á óvart, þar sem á áratugnum frá 1998 fram að því að íslenska bankakerfið fór afvelta, var fyrst og fremst fjárfest í aðstöðu fyrir mjólkurkýrnar. Tæpur þriðjungur hyggst fjárfesta í breytingum og/eða viðbyggingum við núverandi fjós og 11% svarenda hyggjast byggja ný fjós á næsta áratug. Þá hafa um 16% í hyggju að auka við geymslurými fyrir búfjáráburð, en frá 1. júlí 2015 verður gerð krafa um 6 mánaða geymslurými fyrir búfjáráburð við öll gripahús.

Um 11% svarenda hyggjast fjárfesta í mjaltagryfju með tilheyrandi búnaði og tæp 13% hafa fyrirætlanir um fjárfestingu í mjaltaþjóni. Tæp 38% ætla ekki að fara út í neinar fjárfestingar af framangreindu tagi á næstu 10 árum. Það hlutfall er hæst meðal minnstu búanna, tæpur helmingur búa með <100 þús. ltr. framleiðslu hyggur ekki á neinar fjárfestingar, á meðan um fjórðungur búa með >300 þús. ltr framleiðslu hyggur ekki á neinar fjárfestingar í framleiðsluaðstöðu. Einnig er nokkuð skýrt samhengi milli aldurs svarenda og fjárfestingaáforma;  18% svarenda á aldrinum 30-39 ára hyggja ekki á fjárfestingar á meðan tæp 60% svarenda eldri en 60 ára sjá ekki fyrir sér fjárfestingar í framleiðsluaðstöðu á næstu 10 árum./BHB