Viðhorfskönnun: 70% vilja einbeita sér að heimamarkaði
25.03.2013
Í viðhorfskönnun LK var m.a. spurt um hvaða leiðir við markaðssetningu svarendur teldu helst styrkja framtíðarmöguleika íslenskrar mjólkurframleiðslu. Yfirgnæfandi meirihluti eða 70%, svaraði því til að framleiðsluna ætti fyrst og fremst að miða við innlendan markað og nýta eftir föngum hagstæða erlenda markaði. Þetta er í raun lýsing á stöðunni eins og hún er í dag. Um fjórðungur svarenda, 24,4%, vildi hefja verulega sókn á erlenda markaði og auka þannig umsvif greinarinnar. Stærstu búin skera sig úr í þessu samhengi, 42% svarenda á þeim vilja sækja á erlenda markaði, annars er hverfandi munur á viðhorfum eftir bústærð. Þá svara einungis um 30% þeirra sem vilja auka framleiðsluna, að sækja eigi á erlenda markaði.
Þessar niðurstöður eru athyglisverðar í því ljósi, að rúmlega 60% svarenda hyggjast auka framleiðsluna, eins og kom hér fram í gær, ásamt því að einungis 7% ætla að hætta og að neysla mjólkurafurða hér á landi er ein sú mesta sem þekkist í heiminum./BHB