Viðhorfskönnun: 62% svarenda hyggja á framleiðsluaukningu
23.03.2013
Niðurstöður viðhorfskönnunar LK voru kynntar á aðalfundi samtakanna í gær. Úrtak vegna könnunarinnar voru greiðslumarkshafar hjá Auðhumlu svf. og Mjólkursamlagi KS, alls 659 aðilar. Alls svöruðu 399 eða 60,8%. Spurningar og bakgrunnsbreytur (aldur, bústærð, búseta, stærð ræktaðs lands, stærð ræktanlegs lands, framleiðsluaðstaða) voru alls 26. Meðal niðurstaðna er að 62% svarenda stefna að aukinni mjólkurframleiðslu á næstu 10 árum, það er ótvírætt merki um bjartsýni í greininni.
Einungis 7% svöruðu því til að þeir hyggðust hætta framleiðslu á næstu 10 árum. Flestir stefna að aukningu undir 100 þúsund lítrum og má áætla út frá niðurstöðunum að heildar aukningin sem stefnt er að sé á bilinu 25-30 milljónir lítra. Frekari grein verður gerð fyrir niðurstöðum viðhorfskönnunarinnar á næstu dögum hér á naut.is /BHB