Beint í efni

Viðhorfskönnun: 60% bænda vilja takmarkanir á bústærð

11.04.2013

Í viðhorfskönnun Landssambands kúabænda voru bændur spurðir hvort þeir teldu mikilvægt að teknar væru upp takmarkanir á bústærð. Af þeim sem tóku afstöðu (82,5% svarenda) svöruðu 59,3% bænda þeirri spurningu játandi en 40,7% neitandi. Stuðningur við takmarkanir á bústærð fer vaxandi með aldri, 71% bænda yfir 60 ára telja mikilvægt að setja slíkar takmarkanir, á meðan tæpur helmingur bænda á fertugsaldri er hlynntur þeim. Þá minnkar stuðningur við takmarkanirnar hratt með aukinni bústærð. Tæplega 80% bænda með innan við 100 þús. lítra greiðslumark vill setja slíkar takmarkanir, á meðan rúmur þriðjungur bænda með 3-400 þús lítra greiðslumark telur mikilvægt að setja takmarkanir á bústærð í mjólkurframleiðslu.

Þegar bændur voru spurðir hver hámarks stærð búa ætti að vera, ef settar væru slíkar takmarkanir komu fram mjög misjöfn sjónarmið í þeim efnum. Það vekur óneitanlega athygli að um fimmtungur bænda vill að hámarks bústærð sé innan við 400 þús lítrar, eða 60-80 kýr. Sú stærð er einnmitt mjög algeng á nýjum fjósum sem byggð hafa verið hér á landi undanfarin ár, og er um það bil afkastagetan á einum mjaltaþjóni. Af einstökum svarmöguleikum svöruðu flestir, 25,8%, að ein æskileg hámarks stærð væri ekki til. Hugmyndir stéttarinnar um hámarks stærð búa eru því fremur óljósar.

Þegar spurt var hvernig bændur teldu eðlilegast að standa að takmörkunum á bústærð, væri þeim komið á, töldu 47% bænda að takmarka ætti stuðningsgreiðslur, og 41% að takmarka ætti framleiðsluheimildir. Tæpur þriðjungur bænda vildi að takmarkanir byggðu á kröfum um stærð jarðnæðis og rúmlega fjórðungur að takmarkanir byggðu á aðbúnaði gripa og umhverfissjónarmiðum. Nákvæmlega sama hlutfall, 23,1% vildi takmarka bústærð á grundvelli gripafjölda eða fæðuöryggissjónarmiða. Eins og sjá má gátu svarendur merkt við fleiri en einn lið í þessari spurningu.

Í könnuninni voru bændur einnig spurðir af afstöðu þeirra til ráðstöfunar á búnaðargjaldi (1,2% af gjaldskyldri veltu búanna), en í tilfelli kúabænda fer 0,50% til búnaðarsambandanna (nú RML að mestu leyti), 0,35% fer til BÍ, 0,35% fer til LK og 0,05% til Bjargráðasjóðs. Um helmingur bænda vildi halda þessum greiðslum óbreyttum í öllum tilfellum. Flestir vildu gera breytingar á greiðslum í Bjargráðasjóð; um fjórðungur vill auka þær, 9% lækka þær og 15% bænda vilja hætta inngreiðslum af búnaðargjaldi í Bjargráðasjóð. Um 18% bænda vilja auka greiðslur til leiðbeiningaþjónustu, 21% lækka og 11,5% hætta þeim. 16% bænda vilja auka greiðslur til hagsmunagæslu, 21% lækka þær og 7,3% bænda vilja hætta greiðslum til hagsmunagæslu.

Bændur voru einnig spurðir hversu hátt félagsgjald þeir væru tilbúnir að greiða til hagsmunagæslunnar, ef óheimilt reyndist að nýta búnaðargjald til þeirrar starfsemi. 27% bænda sögðu að þeir væru tilbúnir að greiða innan við 20 þúsund kr, eða sem nemur u.þ.b. andvirði hálfs annars poka af kálfafóðri, til þessa starfs. Um 18% voru tilbúin að greiða 20-29 þús. kr, 14% 50-59 þús, 11% bænda voru reiðubúnir að greiða 100 þúsund kr til hagsmunagæslunnar, en einugis tæplega 5% svöruðu því til að þeir væru ekki tilbúnir til að greiða neitt fyrir þá starfsemi.

Kynningu á Viðhorfskönnun Landssambands kúabænda má sjá í heild sinni með því að smella á hlekkinn hér að neðan./BHB

Viðhorfskönnun Landssambands kúabænda 2013