
Viðbrögð BÍ – skýrsla Hagfræðistofnunar um áhrif ESB-aðildar
15.07.2009
Bændasamtökin fagna að fengist hefur að birta skýrslu sem er tilraun til úttektar á áhrifum ESB-aðildar á íslenskan landbúnað. Skýrslan staðfestir í meginatriðum málflutning og rök samtakanna sem haldið hefur verið fram í ESB-umræðunni síðustu misseri.
Bændasamtökin hafa bent á að skoða þurfi með heildstæðum hætti áhrif aðildar að ESB á byggð, búsetu og atvinnulíf í landinu. Um 10.000 manns á vinnumarkaði starfa við íslenskan landbúnað og úrvinnslu og þjónustu honum tengdum. Í skýrslu Hagfræðistofnunar er ekki gerð tilraun til þess að meta áhrif á þessa þætti en slíka úttekt hlýtur að þurfa að gera áður en ákvörðun er tekin.
Bændasamtökin fagna opinni og upplýstri umræðu og að upplýsingum sé ekki haldið leyndum sem gætu veikt málflutning þeirra sem vilja skilyrðislaust gerast aðilar að ESB. Upphlaup það sem varð í dag á Alþingi vegna málsins sýnir vel að aðildarumsókn að ESB þarf meiri og yfirvegaðri umræðu. Bændasamtökin minna á að þau hafa áður lagt til að báðum fyrirliggjandi þingsályktunartillögum verði hafnað.
Haraldur Benediktsson,
formaður Bændasamtaka Íslands
----
Skýrsluna, sem Hagfræðistofnun unnið fyrir nefnd stjórnvalda og hagsmunaaðila þar sem leitast er við að leggja mat á stöðu íslenskra búa innan ESB miðað við þá lausn sem Finnland samdi um við aðild að ESB, má skoða með því að smella hér.