Beint í efni

Viðbætur um nýja hrúta á sæðingastöðvarnar – Dökkvi frá Hesti

17.10.2008

Nú er búið að velja síðustu hrútana sem koma nýir til notkunar á sauðfjársæðingastöðvunum haustið 2007. Þetta eru þeir hrútar sem komu úr afkvæmarannsókninni á fjárræktarbúinu á Hesti í Borgarfirði.
   Haustið 2008 voru 13 hrútar þar í rannsókn. Að þessu sinni var munur á milli afkvæmahópanna minni en oft hefur verið og engir hrútar sem sýndu afgerandi yfirburði um flesta þætti líkt og verið hefur á síðustu árum. Valdir voru til notkunar á stöðvunum fjórir hrútar sem hér verða kynntir á næstu dögum. Allir eru þessir hrútar veturgamlir fæddir haustið 2007. 

Dökkvi er undan Bifur 06-994 en móðir hans er númer 04-390 og er hann þannig sammæðra Kveik 05-965. Dökkvi er svartur að lit og hyrndur. Hann er mjög vel gerður einstaklingur, þéttvaxinn og holdgróinn.
   Fallþungi hrútlambanna í afkvæmarannsókninni var nákvæmlega á meðaltali eða 15,9 kg, en kjöthlufall þeirra var hærra en hjá flestu hinna hópanna. Þykkt bakvöðva mæld í ómsjármælingu var 27,2 mm að jafnaði sem var þriðji besti hópurinn og lögun bakvöðva sú næstbesta hjá þessum hópi, og hjá gimbrum var lögun bakvöðva sú besta hjá dætrum Dökkva. Í kjötgæðaþáttum rannsóknar voru niðurstöður talsvert hagstæðari en meðaltal hennar um alla þætti, en lærastig voru 3,8 og meðaltal um gerð í kjötmati 10,1 og fyrir fitu 5,3.

Í næstu viku verða hinir þrír síðustu hrútar kynntir til sögunnar. Sem fyrr verða myndir og lýsingar Jóns Viðars Jónmundssonar af þeim að finna undir sauðfjárræktarhlutanum á vef Bændasamtaka Íslands.