Beint í efni

Við erum það sem við borðum

04.03.2017

Krafan um upplýsingar um uppruna, framleiðslu og innihald þess sem við setjum ofan í okkur verður ávallt meiri og er það vel. Þegar sífellt fleiri og fjölbreyttari matvörur eru í boði getur það reynst erfitt fyrir neytendur að hafa upplýst val þegar engar upplýsingar er að finna á umbúðum matvælanna, utan upprunalands sem annað hvort kemur fram falinn í runu annarra upplýsinga eða í 5 punkta letri sem erfitt getur reynst að greina.

Það er eðlileg krafa frá neytendum og framleiðendum íslenskra matvæla að upplýsingagjöf til neytenda verði bætt, ekki einungis um hvaðan varan kemur heldur einnig við hvaða aðstæður hún er framleidd og á hvaða hátt. Við erum til að mynda ávallt að verða upplýstari og meðvitaðari um mikilvægi velferðar dýra, hvort sem er í landbúnaði eða annarri umgengni við dýr. Það er því eðlilegt skref og væri mikil bragabót að taka sérstaklega fram með áberandi hætti ef ekki væri tryggt að afurðir séu af dýrum sem alin eru við sambærilegar dýravelferðarreglur og gilda hér á landi.

Óhófleg notkun sýklalyfja orðið geysistórt heilbrigðisvandamál

Sýklalyfjanotkun er annað stórt atriði í þessari umræðu. Ekkert lát virðist vera á óhóflegri notkun sýklalyfja í landbúnaði innan Evrópu og hefur það meðal annars leitt til mikillar aukningar sýklalyfjaónæmra baktería sem berast í fólk. Í þeim málum stendur Ísland hvað best og hvergi er notað minna af sýklalyfjum í landbúnaði á hvern grip en hér á landi og í Noregi. Mesta notkunin er á Spáni en þar er hún 80föld á við það sem gerist hér á landi. Töluverður hluti innflutts nautakjöts til Íslands er upprunninn frá Spáni. Langstærstur hluti innflutta nautakjötsins sem er á boðstólnum í íslenskum verslunum kemur hins vegar frá Þýskalandi en þar er sýklalyfjanotkun í landbúnaði yfir 30 sinnum meiri en hér á landi. Þessar áðurnefndu sýklalyfjaónæmu bakteríur sem borist hafa í fólk hafa valdið miklu tjóni. Staðan í dag er sú að tugir þúsunda látast nú árlega í Evrópu vegna sýkinga sem ekki er hægt að ráða við með sýklalyfjum. Staðan er grafalvarleg og þurfa heilbrigðisyfirvöld að fara að vakna og líta þessi mál alvarlegum augum.

Eftir langa og mikla baráttu hörkuduglegs fólk innan bændastéttarinnar til að vekja athygli á þessu máli virðast menn loksins vera að átta sig á þessu. Haldinn var stór fundur í Iðnó í Reykjavík um málefnið fyrir viku síðan, að frumkvæði Ögmundar Jónassonar, fyrrverandi alþingismanns. Fundurinn var vel sóttur og hefur umræðan um sýklalyfjanotkun og heilnæmi innlendra og innfluttra matvæla verið nokkur í framhaldinu. Það er mín von að við förum að taka almennilega á þessum málum fyrr en síðar. Merkingar um lyfjagjöf eiga að sjálfsögðu að vera til staðar svo neytendur geti tekið upplýsta ákvörðun um hvernig og hvaða vörur þeir velja.

Réttar merkingar er ekki einungis krafa frá neytendum. Íslenskum bændum er gert að keppa við innflutt matvæli og það er sjálfsagt að sú keppni eigi sér þá stað á jafnræðisgrundvelli. Við erum kannski ekki að fara að keppa í lægra verði sökum stærðarhagkvæmni, en við erum sannarlega að bjóða upp á heilnæma gæðavöru. En til þess að neytendur geti borið okkar vörur saman við þá innfluttu, þurfa upplýsingarnar að vera til staðar. Það er erfitt að meta og velja gæði og sérstöðu ef engar merkingar segja til um muninn.

Sérstaða íslensks landbúnaðar

Íslenskur landbúnaður býr yfir nokkurri sérstöðu, utan þess að vera stundaður á norðurhjara og að búfjárkynin okkar eru mörg hver séríslensk. Þegar gerður eru samanburður á búfjársjúkdómum má sjá að Ísland stendur nokkuð vel að vígi, sem má meðal annars rekja til einangrunar landsins. Sýklalyfjanotkun er með minnsta móti líkt og ég hef komið hér inná og á Íslandi, líkt og innan ESB, er notkun vaxtahormóna óleyfileg.

Við eigum að standa vörð um íslenska matvælaframleiðslu. Íslenskir bændur eru að framleiða hágæða matvöru með heilnæmi og sjálfbærni að leiðarljósi. Kolefnissporið er augljóslega minna af vöru sem framleidd er innanlands en þeirri sem flutt hefur verið til landsins yfir hafið, lyfjanotkunin er með því minnsta sem þekkist í heiminum og svokölluð verksmiðjubú þekkjast ekki í íslenskum kúabúskap þar sem stærsta mjólkurbúið er með rétt tæpar 200 mjólkandi kýr. Með auknum upplýsingum til neytenda er ég ekki í nokkrum vafa um það að valið verður nokkuð augljóst.