
Verulegur samdráttur í slátrun ungnauta
21.08.2003
Í nýju yfirliti LK um framleiðslu og slátrun síðustu 12 mánuði kemur fram að verulegur samdráttur hefur orðið á slátrun ungnauta síðasta árið. Fækkunin er samtals tæp 16% og hefur ekki orðið jafn mikill samdráttur í slátrun ungnauta í langan tíma. Á sama tíma hefur slátrun á kúm hinsvegar aukist, sem skýrist að hluta til af aukinni eftirspurn eftir ódýrara kjöti af nautgripum, sem og vaxandi nyt íslenskra kúa.
Sjá má af yfirlitunum fyrir framleiðslu og sölu nautgripakjöts að síðustu 12 mánuði dregst heildarsala á nautgripakjöti saman um 87,6 tonn en samdráttur í sölu á ungnautakjöti er hinsvegar 248 tonn.
Eins og áður hefur komið fram í upplýsingum frá LK er megin skýringa á þessum mikla samdrætti í sölu á ungnautakjöti að finna í offramboði á öðrum kjöttegundum, sem leitt hefur til verðhruns á markaðinum. Ljóst er að undirboð á öðrum kjöttegundum hefur haft skaðleg áhrif á nautgripakjötsmarkaðinn hérlendis og lágt afurðaverð til bænda þegar farið að koma fram í minna framboði og sölu á ungnautum.
Smelltu hér til að fá nánari upplýsingar um framleiðslu og sölu á nautgripakjöti sl. 12 mánuði og í júlí 2003.