Beint í efni

Verulegt tjón vegna kals á Norður- og Austurlandi

31.05.2013

Forsvarsmenn Bændasamtakanna, Bjargráðasjóðs og Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins fóru til fundar við fulltrúa atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins í dag til þess að ræða stöðu mála vegna ótíðar á Norður- og Austurlandi síðastliðna mánuði. Ljóst er að bændur á stórum landssvæðum standa frammi fyrir miklum vanda vegna kals og kulda. Mjög er farið að ganga á heybirgðir á ýmsum bæjum og hafa menn flutt fóður um langan veg til að mæta skorti. Úthagi er víða grár og gróðurvana þó komið sé að mánaðamótum maí júní sem er óvenjulegt. Á fundinum voru lagðar fram upplýsingar sem varpa ljósi á ástandið sem er dæmalaust að mati ráðunauta.

Sindri Sigurgeirsson, formaður Bændasamtakanna, sagði eftir fundinn að staða bænda víða á Norður- og Austurlandi væri ekki öfundsverð. „Við vitum nú þegar að tjónið er umfangsmikið og það mun kosta mikla vinnu og fjármuni að laga þá ræktun sem hefur eyðilagst vegna ótíðarinnar.“ Hann telur að Bjargráðasjóður hafi ekki burði til að mæta tjóninu að óbreyttu og að önnur úrræði þurfi að koma til. Sindri segir að Bændasamtökin muni vinna að úrlausn mála með stjórnvöldum því miklir hagsmunir séu í húfi fyrir bændur og byggðir á stórum landssvæðum.

Að sögn Borgars Páls Bragasonar, fagstjóra hjá Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins, er augljóst að tjónið sé mikið og sum staðar sé allt að 90% kal í túnum á einstaka bæjum. „Þetta er meira en menn bjuggust við og ekki er auðvelt að bregðast við vandanum. Ráðunautar frá Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins hafa fregnir um slæmt ástand túna allt frá Ströndum í vestri og austur á firði. Þeir hafa heimsótt bændur undanfarna daga, lagt mat á stöðuna og veitt ráðleggingar eftir því sem hægt er,“ segir Borgar Páll.

Nokkur svæði enn undir snjó
Á Norður- og Austurlandi er töluvert kal en erfitt er að skera úr um tjónið og hvort tún geta náð sér á strik að mati Borgars. „Vegna kuldatíðar undanfarna daga grænkar mjög hægt og því ekki hægt að segja til um nákvæmt umfang fyrr en hlýnar og túngrös taka við sér. Nokkur svæði eru ekki ennþá komin undan snjó og önnur eru ófær vegna bleytu“.

Staðan er grafalvarleg
Ráðunautur sem fór um Aðaldal sagði stöðuna grafalvarlega. Á sumum bæjum er allt upp í 90% kal í túnum. Á Eyjafjarðarsvæðinu er gríðarlegt kal og líklega miklu meiri skemmdir en á kalárunum alræmdu að mati ráðunauta. Í Öxnadal og Hörgárdal eru um 80-90% þeirra túna sem endurræktuð hafa verið á síðustu 10 árum dauð. Gömlu túnin eru einnig víða mjög skemmd og kalið allt að 80% á einstökum bæjum. Staðan er að koma í ljós á Árskógsströnd og Svarfaðardal en þar er verið að skoða ástandið í dag.

Hvað varðar Skagafjörð eru tún í austanverðum Fljótum enn undir snjó. Í Sléttuhlíð, á Höfðaströnd, í Viðvíkursveit og Hegranesi er talsvert kal á nokkrum bæjum. Í Óslandshlíð og Hjaltadal er kalið mest, jafnvel yfir 70% túnanna skemmd.

Fregnir hafa borist úr Austur-Húnavatnssýslu og Ströndum af slæmu ástandi en umfang er óljóst á þessari stundu að sögn ráðunauta.

Búfé ekki hleypt í úthaga strax
Úthagi er víða grár og gróðurvana og engan veginn tímabært að setja búfé út á hann. Fyrningar hreinsast nú víðast upp og því geta menn ekki leyft sér að bíða lengi með ákvarðanir um framhaldið. Þá hafa fregnir borist af miklum ágangi gæsa sem eru aðgangsharðar í ætisleit í túnum bænda. Þær skemma nýgræðinginn og éta líka sáðkornið úr ökrunum.

Tvísýnt með jarðvinnslu
Þó svo að nokkuð sé liðið á vorið er ekki útilokað að hægt sé endurrækta tún og ná ágætri uppskeru í sumarlok. Tíminn vinnur hins vegar ekki með bændum og ljóst er að sumarið þarf að vera afar hagfellt ef það á að ganga eftir. Jarðvinnsluverktakar á Norðurlandi eru í startholunum og geta aðstoðað bændur ef þeir kalla eftir því.

Heyskortur víða vandamál
Heyflutningar standa yfir og ganga vel en við blasir að flytja þarf töluvert meira af heyi til bænda. Að sögn ráðunauta virðist vera nóg til af heyi sunnan- og vestanlands. Viðbrögð sunnlenskra- og vestlenskra bænda við heyskorti norðanlands hafa verið mjög góð og hafa þeir boðið hey til sölu.

Borgar Páll Bragason segir að í næstu viku muni málin vonandi skýrast. Framvindan ræðst á næstu dögum eftir því hvernig veðrið þróast og hvort gróður taki við sér.