
Veruleg fækkun kúabúa í Englandi og Wales
01.09.2016
Undanfarin þrjú ár hefur kúabúum í Englandi og Wales fækkað um 10% en það svarar til þess að eitt þúsund kúabú hafa lagt upp laupana á þessum þremur árum. Helsta skýringin er viðvarandi lágt afurðastöðvaverð undanfarin misseri sem hefur gert það að verkum að óhagkvæm kúabú hafa ekki getað rekið sig og því annað hvort orðið gjaldþrota eða hreinlega verið lokað.
Samhlið þessari þróun hefur orðið mikil vakning meðal kúabænda í Englandi og Wales að selja mjólk beint frá býli en með því hafa þeir getað stóraukið tekjur sínar á hverjum líter auk þess að komast í beina tengingu við neytendur. Bændurnir hafa sett upp litla sjálfsala á búum sínum þar sem gestir og gangandi geta komið og keypt sér mjólk á verði sem oft er þrefalt eða fjórfalt hærra en mjólkurverðið út úr búð/SS.