Beint í efni

Verstu þurrkar í meira en hálfa öld

07.08.2012

Síðasta vika reyndist bandarískum kúabændum erfið, rétt eins og margar aðrar í sumar. Mikill hiti og úrkomuleysi hefur valdið gríðarlegum uppskerubresti og það svo leitt til þess að kjötframleiðslan mun dragast saman eins og við höfum áður greint frá. Þurrkarnir eru þeir verstu í 56 ár og ekki sér enn fyrir endann á þessum hörmungum sem nú herja einnig í suðurríkjum Bandaríkjana, en höfðu aðallega verið í miðríkjunum.

 

Alls hafa nu tvö af hverjum þremur fylkjum tilkynnt um alvarleg þurrkasvæði innan fylkjamarka sinna. Þannig má nefna að í fylkinu Iowa er talið að 31% landsvæðisins falli undir skilgreininguna um alvarlega þurrka, sem er aukning úr 28% frá vikunni þar á undan. Það er þó lítið miðað við önnur fylki líkt og Kansas og Nebraska þar sem annarsvegar 73% og hinsvegar 83% landsvæðanna eru alvarlega þurr.

 

Fyrirséður uppskerubrestur á bæði soja og maís er mikill og hefur það þegar skilað sér út í verðlagið að einhverju leiti. Ástandið er svo slæmt að bandaríska ríkisstjórnin hefur nú fengið samþykkt frumvarp um mikla styrki (383 milljónir dollara eða um 46 milljarða króna) til bænda á þessum þurrkasvæðum, til þess að mæta því tapi sem þeir verða sjáanlega fyrir. Þannig er ráðgert að bændur fái 75% af ætluðu afurðaverði fyrir hvern grip sem fella þarf vegna þurrka. Þessir styrkir verða þó eingöngu greiddir til kjötframleiðenda en ekki kúabænda í mjólkurframleiðslu, þar sem þar koma til aðrar stuðningsaðgerðir. Fulltrúaráð bandaríkjaþings samþykkti frumvarpið þó með naumindum (223-197) og nú fer frumvarpið fyrir Öldungadeildina. Hún er þó í löngu sumarfríi og kemur ekki saman fyrr en 10. september svo bændurnir þurfa bíða í langan tíma eftir því að vita hvort þeir fái bætur eða ekki/SS.