
Verslunarrisinn Morrisons stendur með breskum bændum
20.07.2017
Í síðustu viku bárust einkar áhugaverðar fréttir frá breska stórfyrirtækinu Morrisons, sem er fjórða stærsta verslunarkeðja Bretlands og rekur nærri 500 verslanir í Englandi, Wales og Skotlandi. Fyrirtækið tilkynnti að það ætlaði að hætta að selja innflutt ferskt kjöt og ætlaði einungis að bjóða neytendum sínum upp á ferskt innlent kjöt.
Þetta eru afar stór tíðindi og varðar vonandi leiðina fyrir aðra verslunarrisa bæði í Bretlandi og annarsstaðar og er dagljóst að Morrisons er með þessari yfirlýsingu að sýna breskum bændum mikinn stuðning og jafnframt að senda skýr skilaboð til hinna risanna á markaðinum en það eru Tesco, Sainsbury‘s og Asda. Forsvarsmenn breskra bænda voru fljótir að taka málið til sín og fögnuðu vel þessari ákvörðun og hvöttu um leið hin fyrirtækin þrjú að taka sömu ákvörðun áður en Brexit verður að veruleika/SS.