
Vernda og efla innlenda matvælaframleiðslu
14.06.2022
Spretthópur, sem matvælaráðherra skipaði vegna alvarlegra stöðu í matvælaframleiðslu á Íslandi hefur nú skilað tillögum sínum og voru þær í morgun lagðar fyrir ríkisstjórn. Hópnum var gert að skoða verð á helstu aðföngum sem hafa hækkað gríðarlegar í kjölfar innrásar Rússa í Úkraínu en litlar líkur eru á að þær hækkanir gangi til baka á næstu mánuðum eða jafnvel misserum með tilheyrandi áhrifum á fæðuöryggi og matvælaverð til neytenda.
Stjórn Bændasamtaka Íslands telur þetta vera mikilvægan áfanga og að með þessum aðgerðum sé ríkisstjórnin að leggja áherslu á mikilvægi innlendrar matvælaframleiðslu, að viðhalda framleiðslugetu landbúnaðarins og draga úr þörf á verðhækkun landbúnaðarafurða til neytenda. Á þessum víðsjárverðum tímum höfum við verið rækilega minnt á mikilvægi og viðkvæmni fæðuöryggis í heiminum. Viðnámsþróttur þjóða byggir á öflugri innlendri matvælaframleiðslu. Hana þurfum við að vernda og efla. Verkefni Bændasamtaka Íslands er ekki nærri því lokið þar sem margar búgreinar komu veikar inn í þessar verðbreytingar og við þurfum að halda áfram að vinna að lausnum fyrir þær. Þess vegna þurfi einnig að horfa til þeirra tillagna sem snúa að starfsskilyrðum landbúnaðarins til framtíðar og má þar m.a. nefna samræmingu og sameiningu afurðastöðva um verkefni.
Frétt af vef stjórnarráðsins og skýrslu hópsins má nálgast hér