Beint í efni

Verður sala á ógerilsneyddri mjólk heimil í framtíðinni?

01.02.2005

Nefnd landbúnaðarráðherra um heimasölu afurða hefur nú lagt fram skýrslu um málið, en nefndin leitaði m.a. til LK varðandi afstöðu til heimasölu mjólkurafurða. Í skýrslunni er farið yfir mikið efni og fjalla skýrsluhöfundar m.a. nokkuð ítarlega um heimasölu mjólkurafurða. Í skýrslunni segir m.a.: „Í ljósi heilbrigðisstöðu

okkar má velta því fyrir sér hvort kanna skuli gaumgæfilega hvort breyta eigi þeim reglum sem í gildi eru. Þar af leiðandi þykir rétt að sérstaklega verði skoðaður möguleiki til sölu á ógerilsneyddri mjólk og afurðum unnum úr henni þegar einungis er um milliliðalausa sölu að ræða á milli mjólkurframleiðanda og neytanda, og þar sem ekki er um stórar einingar né formlegan verslunarrekstur að ræða. Að auki yrðu sett skilyrði fyrir merkingu vörunnar þannig að neytandinn væri ávallt upplýstur um hugsanlega hættu sem gæti hlotist af neyslu. Eðlilegt þykir að til þeirrar skoðunar væru m.a. fengnir sérfræðingar á sviði smitsjúkdóma til að framkvæma svokallað áhættumat risk assessment.“

 

Í niðurstöðum skýrslunnar birtir nefndin tillögur sínar, þar sem segir m.a.: „… stjórnvöld og bændur leiti samninga um að ákveðinn hluti mjólkurframleiðslu verði heimilaður til nota í heimavinnslu. Þannig verði ákveðnum hluta mjólkurframleiðslunnar haldið fyrir utan búvörusamning milli ríkis og bænda…“.

 

Landssamband kúabænda er mjög áfram um heimasölu afurða úr hráefnum sem framleidd eru heima á búunum og seldar þar. Jafnframt er þó full ástæða til að hvetja til varfærni og að framleiðslu- og sölureglur verði mjög skýrar, m.a. þannig að framleiðanda verði ljós sú ábyrgð sem sala beint til neytenda er. Ennfremur hefur stjórn LK lagt áherslu á að ef gefnar verði tilslakanir á kröfum til aðstöðu/vinnslu afurðanna, þá komi ekki til endursölu varanna.

 

Hvað snertir ofangreinda framleiðslu og gildandi samninga á milli bænda og ríkis, hefur LK lagt áherslu á að hugsanleg vinnsla og sala afurða beint heima á búunum standi utan gildandi samnings, þ.e. skapi ekki rétt til opinbers stuðnings samkvæmt gildandi samningi og þeim samningi sem gilda mun frá 1. september nk.

 

Smelltu hér til að lesa skýrsluna um heimasölu afurða