Beint í efni

Verður lokað og slökkt?

14.08.2006

Eftir að Hallgrímur Snorrason skilaði skýrslu sinni um starf nefndar sem ekki komst að samkomulagi, hafa átt sér stað líflegar umræður um matvælaverð á Íslandi og þátt innflutningstolla á búvörum í verðinu. Þetta mál ber að með óvenjulegum hætti og af umræðunni er ljóst að fjölmörg atriði þarfnast nánari skoðunar. Eðlilega horfi ég einkum á málið eins og það snýr að kúabændum. Nú er það svo að mjólkurframleiðsla byggir annars vegar á flóknum líffræðilegum ferlum við framleiðsluna sjálfa og úrvinnslu afurðanna, og hins vegar á hagfræðilegum forsendum.

Umræðan síðustu vikur hefur einvörðungu verið um takmarkaðan þátt hinna hagfræðilegu forsendna. Þær spurningarnar sem brýnast er að leita svara eru þessar:


1. Í skýrslu Hallgríms Snorrasonar er áætlað á bls. 35 að fullt afnám tollverndar leiði af sér minnkandi greiðslur frá markaðnum fyrir búvörur um 7,6 milljarða á meðalverðlagi 2005, (afleiddum áhrifum sleppt).  Þessi tala hefur mikla þýðingu fyrir alla umræðu um tollana og því er spurt, hversu trúverðug eða sennileg er þessi tala ?   Hver var/er afstaða fulltrúa í matvælaverðsnefndinni til þessarar upphæðar ?

2. Hverjar eru líklegar afleiðingar þess að lækka eða fella niður tolla innfluttum búvörum ?  Meta þarf áhrifin sundurliðað eftir búgreinum og afleidd áhrif. Þetta er grundvallaratriði sem verður að leita svara við því það er augljóst að ef fyrrnefnt mat Hallgríms Snorrasonar á bls. 35 í skýrslu hans er rétt, hefur breyting af þessu tagi stórfelld áhrif. (Benda má á skýrslu vinnuhóps á utanríkisráðuneytisins frá því 2003 en skýrsla heitir ,,Íslenskur landbúnaður í alþjóðlegu umhverfi“.)

3. Það sjónarmið hefur komið fram að hægt sé að bæta bændum tekjumissi og eignaskerðingu með auknum stuðningi. Þetta þarf að ræða og þá vaknar spurningin  ,,Hvaða svigrúm hafa íslensk stjórnvöld gagnvart alþjóðasamningum til að auka framleiðslutengdar beingreiðslur til framleiðenda í einstökum búgreinum ef innflutningstollum yrði breytt ?“ 

4. Fyrir liggur að allt er í uppnámi með nýja WTO-samninga og einnig er ljóst að Ísland er ekki eina landið í heiminum með hátt verðlag. ,,Hver eru viðbrögð í öðrum velmegunarlöndum þar sem matvælaverð og annað vöruverð er hátt ? Er hliðstæð umræða í gangi þar ? “

5. Er hægt að draga einhverjar ályktanir um möguleika landbúnaðar á Íslandi út frá landbúnaðarpólitík á Nýja-Sjálandi ? Hafa einhver lönd með líkar náttúrulegar aðstæður og Ísland reynt að fara ,,Nýsjálensku leiðina“ og hver hefur árangurinn orðið ?  

6. Ef þörfum íslendinga fyrir búvörur yrði að umtalsverðu leyti sinnt með innflutningi, hvaðan er þá líklegt að þær búvörur yrðu fluttar ? 
 Ef þessi umræða á að halda áfram og fá nauðsynlega dýpt, hljóta landbúnaðarráðuneytið og landbúnaðarnefnd Alþingis að hafa forgöngu um  að svara verði leitað við þessum grundvallarspurningum. Svör eru nauðsynleg til að rökræn skoðanaskipti geti orðið um íslenskan landbúnað og einstakar búgreinar hans að þessu leyti.


Lækkun framleiðslukostnaðar – Hvað er í gangi ?
 Mjólkurframleiðslan er flaggskip íslensks landbúnaðar og því eðlilegt að fara nokkrum orðum um hvað þar er að gerast.
 Þróun íslenskrar mjólkurframleiðslu einkennist af stækkandi og betur tæknivæddum einingum. Það er góð þróun og nauðsynleg forsenda þess að framleiðslan fái þrifist. Greinin er samt ekki alveg laus við ákveðna togstreitu milli þess annars vegar að hún þróist frjálst til hámarkshagkvæmni, og hins vegar að unnið verði gegn samþjöppun framleiðslunnar. Í ljósi þeirrar umræðu sem nú á sér stað er óhjákvæmilegt að velta fyrir sér hvort þau skref sem hafa verið stigin til að hægja á samþjöppun í greininni hafi verið skynsamleg.
 Það hefur legið fyrir í mörg ár að mikilvirkasta ráðið til að lækka framleiðslukostnað mjólkur á Íslandi er að gefa þeim kúabændum sem þess óska möguleika á að nýta afkastameira kúakyn við framleiðsluna. Þetta var skoðað árið 2001. Séu þær niðurstöður yfirfærðar á núverandi aðstæður væri að óbreyttum ríkisstuðningi hægt að lækka afurðastöðvaverð mjólkur um 17 – 26 %,  ef þessi grunnur er réttur.  Þess er að vænta að Landbúnaðarháskóli Íslands meti í haust og vetur þessa þætti og fleiri er varða hugsanlega notkun afkastameiri kúakynja á Íslandi.

 

Verður lokað og slökkt ?
Þessi yfirskrift greinarinnar er sótt í grein á heimasíðunni landbrug.dk. Þar birtist fyrir nokkrum dögum frásögn af því að National Farmers Union, samtök bænda í Englandi, hafi aðvarað mjólkursamlögin þar og bent þeim á að ef mjólkurverð til bænda haldi áfram að lækka muni styttast í að ,,mjólkurframleiðendur loki og slökkvi“. Fyrir þessari aðvörun sinni færa þeir ákveðin rök. Við skulum vona að ekkert slíkt hendi hjá okkur, en munum að landbúnaður er ekki lögmál heldur atvinnugrein.