Verðþróun á nautakjöti og helstu aðföngum
22.05.2014
Í Fréttablaðinu sem kom út í gær, miðvikudaginn 21. maí, var umfjöllun um stöðu á nautakjötsmarkaði og verðþróun á nautakjöti undanfarin ár. M.a. var vísað til samantektar aðstoðarframkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins, sem komst að þeirri niðurstöðu að verð á nautakjöti til bænda hefði hækkað um 30% frá desember 2010. Þegar horft er til þróunar á markaði yfir lengra tímabil, skiptir vitanlega máli hvaða tímabil er lagt til grundvallar. Í tilfelli nautakjötsins, þar sem framleiðsluferillinn er nálægt þremur árum, er eðililegt að mati Landssambands kúabænda að horfa til lengri tíma en þar var gert. Í tilfelli samantektar aðstoðarframkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins miðast upphafið við desember 2010. Til þess ber að líta að þá höfðu engar verðbreytingar orðið á nautakjöti til bænda í rúmlega tvö ár; verð til framleiðenda var óbreytt frá mars 2008 fram í maí 2010, eða í 26 mánuði.
Eins og sjá má á myndinni hér að neðan sem sýnir samanburð á verðþróun á algengasta flokki ungnautakjöts, UN 1 A, til bænda og vísitölu neysluverðs frá 1. janúar 2008 til 30. apríl 2014, má sjá að nánast allt þetta tímabil hækkaði nautakjöt minna en almennt verðlag í landinu. Á þessu tímabili hafa verðhækkanir á lykilaðföngum til nautakjötsframleiðslu hins vegar verið tröllauknar. Við umfjöllun af þessu tagi er útilokað að horfa framhjá því. Á tímabilinu sem hér um ræðir hefur áburðarverðið hækkað um ríflega 200%; mesta hækkunin varð vitanlega í kjölfar gengishrunsins vorið 2008 en einnig hefur heimsmarkaðsverð á áburði hækkað gríðarlega undanfarin ár, þangað til núna í vor að það lækkaði lítillega í fyrsta skipti í sjö ár.
Þessi staðreynd hefur vitanlega gríðarleg áhrif á afkomu nautakjötsframleiðenda. Þá setti óhagstætt veðurfar strik í reikninginn undanfarin ár; miklir þurrkar 2011 og 2012 og verulegar kalskemmdir árið 2013. Ásetningur kálfa til kjötframleiðslu hefur hins vegar farið vaxandi undanfarna mánuði, þannig að horfur eru á auknu framboði innlends nautakjöts á næstunni.
Eftirspurn eftir nautakjöti á innlendum markaði hefur farið ört vaxandi á undanförnum mánuðum, sem er vitaskuld ánægjuleg þróun. Til að auka framboð á nautakjöti hafa stjórnvöld gefið út opna tollkvóta á nautakjöti; heimilt er því að flytja inn nautakjöt í ótakmörkuðum mæli á lágum tollum.
Að mati Landssambands kúabænda felast talsverð tækifæri í eflingu holdanautabúskapar hér á landi. Það sem stendur þeirri grein hins vegar fyrir þrifum er að mjög hægt hefur gengið að endurnýja erfðaefni þeirra holdanautastofna sem hér eru fyrir. Vonandi hillir undir farsæla niðurstöðu í því máli í samvinnu við stjórnvöld. Slíkt væri ein af lykillausnum á því að auka framboð á innlendu nautakjöti.
Í þessu samhengi er einnig eðlilegt að varpa fram þeirri spurningu, hvort íslensk smásöluverslun telji sig ekki bera neina ábyrgð á því að neytendum hér á landi standi til boða íslensk vara, sem margir hverjir sækjast eftir? Í því samhengi er hollt að líta til þróunar sem átt hefur sér stað í nálægum löndum, þar sem smásöluverslunin hefur beitt ofurvaldi sín gegn bændum. Eitt frægasta dæmið um það er bresk mjólkurframleiðsla en smásölukeðjur þar í landi hafa leikið hana þannig að hún hefur dregist verulega saman á undanförnum árum. Einn af stóru aðilunum í breskri smásöluverslun, Tesco, hefur áttað sig á því að þessi þróun gæti endað í öngstræti, þar sem afkoma framleiðendanna er gersamlega óviðunandi. Þess vegna hefur hún sett upp ráðgjafaþjónustu fyrir bændur, og sérstakt átak „Trading responsibly„, sem á að stuðla að því að allir aðilar í virðiskeðjunni beri eitthvað úr býtum./BHB