Beint í efni

Verðmyndun á mjólk til félagsmanna Arla Foods

07.01.2011

Eins og mörgum mun vera kunnugt, er Arla Foods eitt af stærstu mjólkurvinnslufyrirtækjum í heiminum. Árið 2009 vann félagið úr rúmlega 8,6 milljörðum lítra mjólkur, í Danmörku, Svíþjóð og Bretlandi. Arla er samvinnufélag í eigu danskra og sænskra kúabænda, um 3.800 félagsmenn eru í hvoru landi um sig. Fyrir utan að starfa undir kvótakerfi ESB (sem vitanlega er mikið inngrip af hálfu stjórnvalda, inniber t.d. sektargreiðslur vegna framleiðslu umfram kvóta) eru engin opinber afskipti af verðlagningu á afurðum félagsmanna. Mjólkurverð til bænda ræðst af því sem markaðurinn gefur hverju sinni. Snýst tilvera félagsins því um það seint og snemma að viðhalda og auka hlutdeild sína á þeim mörkuðum sem hæst verð gefa. Mjólkurverðið breytist frá mánuði til mánaðar og kallast það „Arlanoteringen„. Það er hæsta mögulega verð sem félagsmenn geta fengið. Gefið er út tvenns konar mjólkurverð; fyrir hefðbunda mjólk (d. konventionel) og þá sem framleidd er undir merkjum lífrænnar framleiðslu (d. økologisk).

Mjólkurverðið til félagsmanna er byggt upp af nokkrum þáttum, til tekna og frádráttar. Veigamesti þátturinn er það sem kalla má grundvallar hráefnisverð (d. råvareværdien) sem byggir á innihaldi fitu og próteins. Í nóvember sl. var sá þáttur 2,45 DKK pr. kg mjólkur, m.v. 4,2% fitu og 3,4% prótein. Það eru um 50 ISK pr. kg. Ofan á hráefnisverðið er greitt gæðaálag, sem mest getur orðið 9,8 aurar pr. kg eða tvær ískrónur. Hráefnisverðið var því í nóvember 254,8 aurar/kg. Þar að auki fá lífrænir framleiðendur álag á þá framleiðslu, 57,9 aura pr. kg. Verð fyrir lífræna mjólk var því 312,7 aurar í nóvember, eða um 62 isk/kg.

 

Svokallað árstíðaálag (d. sæsondifferentering) er ýmist jákvætt, neikvætt eða ekkert eftir árstímum og er því ætlað að jafna framleiðsluna, ekki ósvipað hlutverk og C-hluti beingreiðslna gegnir hér á landi. Í nóvember 2010 var árstíðaálagið 0 aurar, í október +23,5 aurar pr. kg og í júní var það -22,1 aurar pr. kg. Hluti af væntanlegum arðgreiðslum og innlegg í stofnsjóð er greiddur í hverjum mánuði og fara þær eftir afkomu félagsins. Þær eru svo gerðar upp á nýju ári, þegar afkoma fyrra árs liggur endanlega fyrir. Þá er hægt að fá greitt álag á mjólkurverðið gegn því að mjólk megi sækja heim á búið hvenær sólarhringsins sem er, það er 2 danskir aurar pr. kg. Stórir framleiðendur fá síðan flutningsafslátt, til að fá hann þurfa félagsmenn að leggja inn að lágmarki 1.000.000 kg árlega og fer hann vaxandi eftir innleggsmagni, nær hámarki við fimm milljón kg ársinnlegg, 4,5 aurar/kg. Að lokum er rukkað fyrir félagsgjöld (d. medlemsafhænginge omkostninger), sem fara lækkandi pr. kg mjólkur eftir innleggsmagni. Við 5.000.000 kg ársinnlegg eru þessi gjöld 0,2 aurar/kg.

 

Nánari samantekt um samsetningu afurðaverðsins er í töflunni hér fyrir neðan, verðið er í dönskum aurum pr. kg mjólkur með 4,2% fitu og 3,4%, búið leggur inn 5.000.000 kg árlega af mjólk í efsta gæðaflokki:

 

Arla verð í júní 2010 Hefðbundin mjólk Lífræn mjólk
Hráefnisverð 221,2 221,2
Gæðaálag 8,9 8,9
Lífrænt álag 0 57,9
Árstíðaálag +/- -22,1 -22,1
Hluti arðgreiðslna og stofnsjóður 16,1 16,1
Mjólk sótt hvenær sem er 2,0 2,0
Flutningsafsláttur 4,5 4,5
Félagsgjöld -0,2 -0,2
Heildar mjólkurverð 230,4 288,3

Íslenskar kr/kg

47 58
Arla verð í október 2010
Hráefnisverð 235,4 235,4
Gæðaálag 9,4 9,4
Lífrænt álag 0 57,9
Árstíðaálag +/- 23,5 23,5
Hluti arðgreiðslna og stofnsjóður 19,4 19,4
Mjólk sótt hvenær sem er 2,0 2,0
Flutningsafsláttur 4,5 4,5
Félagsgjöld -0,2 -0,2
Heildar mjólkurverð 294,0 351,9

Íslenskar kr/kg

60 71

 

Á myndinni hér að neðan má sjá meðal mjólkurverð til félagsmanna Arla Foods 1999 til 2009. Tölurnar eru á verðlagi hvers árs. Metverð fékkst fyrir mjólkina 2008, en 2009 hríðféll það og var það eitt erfiðasta rekstrarár danskra kúabænda um langt skeið. Á tímabili var það undir 2 DKK pr. kg.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 Á nýliðnu ári var verðþróunin bændum mjög hagfelld, eins og sjá má á myndinni hér fyrir neðan. Því er spáð að verðhækkanir haldi áfram á því ári sem er nýhafið. Það vekur óneitanlega talsvert mikla athygli að mjólkurverð til danskra kúabænda með lífræna framleiðslu, er um þessar mundir það sama og íslenskir kúabændur með hefðbundna framleiðsluhætti fá fyrir afurðir sínar.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Heimild: Arlafoods.dk