Beint í efni

Verðmætustu vörumerkin í mjólkuriðnaðinum

16.08.2019

Á hverju ári er gefinn út listi yfir þau vörumerki sem eru metin verðmætust í heimi í mismunandi flokkum matvara. Þessi listi er byggður á verðmati sérfræðinga hjá alþjóðafyrirtækinu Brand Finance en skýrslan sem fyrirtækið gefur árlega út nefnist „Brand Finance Food & Drink“. Í henni kemur m.a. fram að fyrirtækið Nestlé er með algjöra sérstöðu í heiminum hvað varðar vörumerki enda í afar fjölbreyttri framleiðslu og hefur ekki einskorðað sig við mjólkurvinnslu.

Til þess að átta sig á stærð Nestlé má horfa til verðmatsins á vörumerkinu en það er talið nema 71 milljarði bandaríkjadala. Til samanburðar er verðmatið á vörumerkinu Danone, sem er í fyrsta sæti af þeim fyrirtækjum og félögum sem eru einungis í afurðavinnslu mjólkur, 8 milljarðar bandaríkjdala!

Eins og áður segir er hið franska Danone þekktasta vörumerkið þegar kemur að þeim fyrirtækjum og félögum sem eru einungis í afurðavinnslu úr mjólk en athygli vekur að tvö kínversk fyrirtæki eru í öðru og þriðja sæti á listanum, þ.e. Yili og Mengniu! Þessi fyrirtæki eru afar lítið þekkt utan Kína, en hafa þó bæði markað sér skýra stefnu um að færa út kvíarnar til annarra landa og sterk staða vörumerkja þeirra gefur þeim væntanlega byr undir báða vængi. Í fjórða sæti á listanum er hið norður-evrópska samvinnufélag Arla og hið indverska samvinnufélag Amul er í fimmta sæti á listanum yfir þekktustu vörumerkin í heimi.

Hér fyrir neðan má sjá listann yfir 10 verðmætustu vörumerkin í mjólkuriðnaðinum en skýrsluna í heild sinni má einnig hlaða niður og lesa með því að smella hér.