Beint í efni

Verðmæti áburðarefna og hækkandi áburðarverð

17.01.2008

Síðustu vikur og mánuði hafa borist fréttir af hækkandi áburðarverði og eru orsakirnar margvíslegar en aðallega aukin matvælaframleiðsla sem birtist í aukinni eftirspurn eftir korn- og sáðvöru ýmisskonar. Ein af orsökunum er til dæmis sú ákvörðun Evrópusambandsins að hætta að styrkja bændur þar til að hafa land í tröð eða órækt. Vegna þessa stækkar akurlendið sem bændur ætla sér að bera á og sá í all nokkuð. Samhliða hefur nokkrum áburðarverksmiðjum í heiminum verið lokað og aðrar sameinaðar, þannig að nokkuð hefur dregið úr samkeppni á markaðnum. Allt leiðir þetta til þess að nú reyna áburðarsalar að hækka verð á áburði.

Heimsmarkaðsverð á áburði hefur hækkað all nokkuð en sterk staða krónunnar dregur að vísu nokkuð úr þeim áhrifum. Þessi markaður er því miður allt annað en einfaldur því þarna spila saman verðlag á heimsmarkaði sem oftast er í dollurum eða evrum. En svo koma áhrif gengis inn í og geta breytt dæminu all nokkuð. Ef heimsmarkaðsverð á áburðarefnum er skoðað frá desember 2006 til desember 2007 er hækkun á ammóníum, kalkammóníumnítrat og fosfórsýru um 24 til 26% reiknað í krónum. En það þarf ekki nema stytta þetta tímabil um einn mánuð til að fá allt aðra mynd eða frá 26% lækkun á ammóníum, 1 % lækkun á kalkammóníumnítrati og 17% hækkun á fosfórsýru. Þessi mynd kemur fram þegar verðbreytingarnar eru reiknaðar í krónum.

En áburðarsalar hafa boðað hækkanir á áburði og birtist óvissan meðal annars í því að ekki hafa þeir um langa hríð verið seinni til að birta verðskrár og meira að segja vöruframboð. Því er tilefni til að velta fyrir sér hvernig skuli bregðast við. Líklegt er að bændur þurfti að taka talsverðan hlut þessarar hækkunar beint á sig. Því ólíklegt verður að teljast að hægt sé að velta henni beint út í afurðarverð.

Áburðaráætlun, þar sem höfð er til viðmiðunar, fyrri uppskera, jarðvegsgerð og heyöflunaráætlun er nauðsynlegt áhald til að geta beitt sparnaðaraðgerðum í áburðarkaupum. Er ástæða til að hvetja bændur til að gera slíkar áætlanir, má fá til þess aðstoð frá ráðunautaþjónustunni í hverju héraði. Verkfærin plógur og skítadreifari eru jafnframt mikilvæg verkfæri til að ná fram sparnaði í áburðarkaupum og minnka þannig tekjuskerðinguna sem fylgir hækkunum á aðföngum. Plógurinn til að geta sáð uppskerumeiri grösum og þannig aukið uppskeruauka áburðarins. Skítadreifarinn til að auka nýtingu búfjáráburðarins sem dregur beint úr þörfinni á aðkeyptum áburðarefnum.

Það er þó alls ekki sama hvernig þessum verkfærum er beitt. Nýtingarhlutfall köfnunarefnis í búfjáráburðinum getur hlaupið frá 20 til 90 % eftir því hvernig tekst til við dreifinguna. Nýtingin er almennt lakari eða allavega viðkvæmari með taðdreifaranum en mykjudreifaranum. Allra best er nýtingin þegar dreift er í röku og lygnu veðri þegar grasið er í sprettu. Jafnframt er hún lökust þegar borið er á í þurrum vindi þegar grasið er ekki í sprettu. Það má færa fyrir því sæmileg rök að verðmæti þess köfnunarefnis sem hægt er að auka nýtingu á sé um 1600 kr. á hverja mjólkurkú og 112 kr. á hverja kind. Fosfór og kalí eru ekki nærri eins rokgjörn efni en geta þó skolast af túnum með afrennsli þannig að ekki er hægt að tala um aukna nýtingu á þeim eins og köfnunarefni. Þegar rætt er um verðmæti búfjáráburðar má ekki gleyma því að búfjáráburðurinn er yfirleitt eini snefilefnagjafinn sem notaður er í túnrækt.

/SÞG