Beint í efni

Verðlistar kjarnfóðurs uppfærðir

23.07.2012

Undanfarinn mánuð hafa Bústólpi ehf, Lífland hf, Fóðurblandan hf. og SS svf. hækkað verð á kjarnfóðri. Hefur verðlisti kjarnfóðurs verið uppfærður af því tilefni. Ekki hafa borist upplýsingar um verð á kjarnfóðri hjá Landstólpa ehf og er hér með skorað enn á ný á félagið að gera verðskrá aðgengilega. Á myndinni hér að neðan má sjá verðþróun á algengri 16% blöndu með fiskimjöli undanfarin 2 ár. Á vormánuðum 2010 kostaði slík blanda rúmlega 62.000 kr/tonn. Verðið hækkaði jafnt og þétt fram á vorið 2011 og komst þá í um 80.000 kr/tonn. Þá tók við lækkun sem stóð fram á sl. haust, þegar verðið fór niður í um 75.000 kr/tonn. Í apríl sl. hækkaði verðið síðan og aftur nú í júnímánuði. Er verð í dag í kringum 85.000 kr/tonn með magn- og staðgreiðsluafslætti og hefur ekki verið hærra í annan tíma. Horfur á kornmörkuðum næstu mánuði eru fremur dökkar. T.d. er útlit fyrir lélega uppskeru á maís í Bandaríkjunum, eins og fram kom í mati bandaríska landbúnaðarráðuneytisins á uppskeruhorfum sem út kom sl. mánudag. Þar var mat manna að ástand 38% akra í 18 helstu maísræktarfylkjunum væri ýmist lélegt eða mjög lélegt, en þar vestra geysa nú mestu þurrkar í áratugi./BHB