Verðlagsmál mjólkur
05.01.2008
Ágætu lesendur.
Á Kýrhausnum hafa komið fyrirspurnir um forsendur verðbreytinga á mjólk nú um áramótin. Hvað bændur varðar, þá byggir hækkunin á framreikningi verðlagsgrundvallar kúabús. Á tímabilinu 1. september 2006 til 1. september 2007 breyttust einstakir kostnaðarliðir verðlagsgrundvallar kúabús sem hér segir:
Liðir | 1.9.2006, kr. | 1.9.2007, kr. | Breyting, kr. | Breyting, % |
Kjarnfóður | 1.645.938 | 1.834.396 | 188.458 | 11,45 |
Áburður | 865.133 | 967.217 | 102.084 | 11,80 |
Rekstrarvörur | 569.370 | 552.147 | -17.223 | -3,02 |
Vélar | 1.526.882 | 1.587.982 | 61.100 | 4,00 |
Flutningur | 886,885 | 789.410 | -97.475 | -10,99 |
Þjónusta | 788.598 | 786.767 | -1.831 | -0,23 |
Viðhald | 634.072 | 690.038 | 55.966 | 8,83 |
Ýmis gjöld | 1.093.018 | 1.173.259 | 80.241 | 7,34 |
Afskriftir | 2.468.547 | 2.493.671 | 25.124 | 1,02 |
Vextir | 2.026.754 | 2.065.047 | 38.293 | 1,89 |
Laun | 7.538.442 | 8.162.230 | 623.788 | 8,27 |
Alls | 20.043.639 | 21.102.164 | 1.058.525 | 5,28 |
Verðlagsgrundvöllur mjólkur miðast við 188.000 lítra framleiðslu.
Eins og þarna kemur fram hækkaði kostnaður um 5,28 % á þessu tímabili.
Mjólkurverðið var 47,45 kr/ltr. þann 1.10.2006. Síðan hefur verðið hækkað sem hér segir:
Hinn 1. júní 2007 um 1,19 kr/ltr.
Hinn 1. nóvember 2007 um 0,62 kr/ltr.
Hinn 1.janúar 2008 um 0,70 kr/ltr.
Samtals hefur verðið því hækkað um 2,51 kr/ltr. frá 1.10.2006. Það samsvarar 5,28 % hækkun.
Hvað er framundan ?
Framundan er óvenjulega mikil óvissa um þróun framleiðslukostnaðar og enn meiri um leiðréttingu á mjólkurverði. Er þar hvort tveggja að óljóst er hversu miklar hækkanir verða, og einnig hvenær hækkanirnar verða komnar inn í framreikning Hagstofunnar á Verðlagsgrundvellinum. Mér kæmi ekki á óvart þótt framleiðslukostnaður hækki um 6 – 8 % frá 1.september 2007 til 1. júní 2008 en mjög erfitt að meta hvað af því verður komið inn í framreikning þann 1.3.2008. Ef þetta gengi eftir væri hækkunarþörfin orðin 3 – 4 krónur á lítra um mitt ár 2008. Um það bil 1 króna af þessari af þessari hækkunarþörf var þegar komin fram í framreikningi 1. desember sl. og enginn vafi á bændur finna orðið verulega fyrir hækkun ýmissa útgjaldaliða sem vega þungt í rekstrinum. Til viðbótar við kjarnfóðrið vega þar hvað þyngst hækkanir á vöxtum verðtryggðra lána m. breytilegum vöxtum í íslenskri mynt. Við getum dregið þetta saman þannig að afkoman versnaði síðari hluta ársins 2007 og mikil óvissa er um þróun mála árið 2008.
Rétt er að vekja athygli á því að miklar hækkanir á mjólkurvörum erlendis má rekja til tveggja þátta. Annars vegar aukinnar eftirspurnar á heimsmarkaði og hins vegar hækkandi framleiðslukostnaðar. Hérlendis er það ekki þannig að hækkanir komi frá markaðnum, heldur erum við að reyna að ná fram leiðréttingu á verði vegna hækkandi framleiðslukostnaðar.