Beint í efni

Verðlagsmál mjólkur

05.01.2008

Ágætu lesendur.
Á Kýrhausnum hafa komið fyrirspurnir um forsendur verðbreytinga á mjólk nú um áramótin. Hvað bændur varðar, þá byggir hækkunin á framreikningi verðlagsgrundvallar kúabús. Á tímabilinu 1. september 2006 til 1. september 2007 breyttust einstakir kostnaðarliðir verðlagsgrundvallar kúabús sem hér segir:

Liðir

1.9.2006, kr. 1.9.2007, kr. Breyting, kr. Breyting, %
Kjarnfóður 1.645.938 1.834.396 188.458 11,45
Áburður 865.133 967.217 102.084 11,80
Rekstrarvörur 569.370 552.147 -17.223 -3,02
Vélar 1.526.882 1.587.982 61.100 4,00
Flutningur 886,885 789.410 -97.475 -10,99
Þjónusta 788.598 786.767 -1.831 -0,23
Viðhald 634.072 690.038 55.966 8,83
Ýmis gjöld 1.093.018 1.173.259 80.241 7,34
Afskriftir 2.468.547 2.493.671 25.124 1,02
Vextir 2.026.754 2.065.047 38.293 1,89
Laun 7.538.442 8.162.230 623.788 8,27

Alls

20.043.639 21.102.164 1.058.525 5,28

 

Verðlagsgrundvöllur mjólkur miðast við 188.000 lítra framleiðslu.

 

Eins og þarna kemur fram hækkaði kostnaður um 5,28 % á þessu tímabili.
Mjólkurverðið var 47,45 kr/ltr. þann 1.10.2006. Síðan hefur verðið hækkað sem hér segir:

Hinn 1. júní 2007 um 1,19 kr/ltr.
Hinn 1. nóvember 2007 um 0,62 kr/ltr.
Hinn 1.janúar 2008 um 0,70 kr/ltr.
 Samtals hefur verðið því hækkað um 2,51 kr/ltr. frá 1.10.2006. Það samsvarar 5,28 % hækkun.

 

Hvað er framundan ?
 Framundan er óvenjulega mikil óvissa um þróun framleiðslukostnaðar og enn meiri um leiðréttingu á mjólkurverði. Er þar hvort tveggja að óljóst er hversu miklar hækkanir verða, og einnig hvenær hækkanirnar verða komnar inn í framreikning Hagstofunnar á Verðlagsgrundvellinum. Mér kæmi ekki á óvart þótt framleiðslukostnaður  hækki um 6 – 8 % frá 1.september 2007 til  1. júní 2008 en mjög erfitt að meta hvað af því verður komið inn í framreikning þann 1.3.2008. Ef þetta gengi eftir væri hækkunarþörfin orðin 3 – 4 krónur á lítra um mitt ár 2008. Um það bil 1 króna af þessari af þessari hækkunarþörf var þegar komin fram í framreikningi 1. desember sl. og enginn vafi á bændur finna orðið verulega fyrir hækkun ýmissa útgjaldaliða sem vega þungt í rekstrinum. Til viðbótar við kjarnfóðrið vega þar hvað þyngst hækkanir á vöxtum verðtryggðra lána m. breytilegum vöxtum í íslenskri mynt. Við getum dregið þetta saman þannig að afkoman versnaði síðari hluta ársins 2007 og mikil óvissa er um þróun mála árið 2008.
 Rétt er að vekja athygli á því að miklar hækkanir á mjólkurvörum erlendis má rekja til tveggja þátta. Annars vegar aukinnar eftirspurnar á heimsmarkaði og hins vegar hækkandi framleiðslukostnaðar. Hérlendis er það ekki þannig að hækkanir komi frá markaðnum, heldur erum við að reyna að ná fram leiðréttingu á verði vegna hækkandi framleiðslukostnaðar.