Beint í efni

Verðlagsmál

16.10.2017

Núna eftir helgina er fyrsti fundur í nýskipaðri Verðlagsnefnd búvara, skipaða af ráðherra landbúnaðarmála í sitjandi starfsstjórn. Eins og við mátti nú búast þá hefur það vakið töluverða athygli að annar tveggja aðila sem skipaðir voru eftir tilnefningu félagsmálaráðherra, er Þórólfur G. Matthíasson, prófessor við hagfræðideild Háskóla Íslands.

Það er í sjálfu sér ekkert athugavert að fá aðila úr þessu umhverfi til að leggja starfi Verðlagsnefndar lið. Hagfræðingur ætti að geta hjálpað til við skýra heildarmyndina, vera með uppbyggilega gagnrýni og koma jafnvel með ný sjónarhorn inn í svona starf. En ef það er það sem vakti fyrir hæstvirtum ráðherra við þessa skipun, þá var líklega verið að veðja á rangan hest fyrir það verk. Ekki þarf að fjölyrða mikið um að samskipti Þórólfs og bændaforystunnar í fjölmiðlum hafa verið afar neikvæð síðastliðin ár, sem er ekki góður upphafsstaður fyrir svona vinnu.

Ekki að það þurfi að vera eintómt „já-fólk“ sem býður hvort öðru í síðdegiskaffi í nefndinni, en engu að síður er ekki hægt annað en að vera hugsi yfir þessum aðstæðum, ef vinnubrögð og framsetning Þórólfs í fjölmiðlum gefa fyrirheit um það sem koma skal.

Samsæriskenningar um að fyrri Verðlagsnefndir gæti þess að þeirra fréttatilkynningar komi á tímum sem tryggi að lítið sé eftir þeim tekið, gefa ekki tilefni til annars en að brosa í kampinn. Flestar greinar sem frá honum koma innihalda einhæfar reikningskúnstir sem passa vel í glærusýningu, en lítið verið að horfa á allt landslagið og taka inn í þau lífeðlisfræðilegu-, vistfræðilegu- og mannfræðilegu (svo dæmi séu tekin) áhrif sem spila inn í hjá heilli atvinnugrein.

Það sást einnig hversu fljótur hann var að stökkva á vagninn þegar umræðan um lambakjötsfjallið, og tala fjálglega um stöðu mála, en þar saknaði ég t.d. þess að það væri komið inn á mikilvægi þess að greina hvaða vara væri safnast upp. Til að gæta sanngirni þá kom hann með sína sýn á útflutningsmál og hvaða mörkuðum hann teldi að sauðfjárbændur ættu að einbeita sér að. En fræðimennskan er nú ekki sérstaklega mikil, en kannski er meira verið að sækjast eftir pólitískri slagsíðu með þessari skipun.

Nautakjötsmegin er breytingin á kjötmatskerfinu mál málanna. Undirritaður gerði greiningu á gögnum sem lágu fyrir um það leyti sem kjötafurðastöð KS hóf að greiða eftir Europ-kjötmatinu og birt var á heimasíðu LK. Gefi þær tölur rétta mynd af raunveruleikanum, er full ástæða til að endurskoða áherslur og uppsetningu á verðskránni eins og hún lítur út í dag.

Mikill meirihluti íslenskra nauta fellur í þá flokka sem valda tapi á tilfærslunni á milli kjötmatskerfa, og það miklu í alltof mörgum tilfellum. Vissulega er verið að setja aukinn kraft holdanautaræktun, með langþráðri innspýtingu á erfðaefni í stofninn hérlendis, en óhætt er að fullyrða að innlenda nautgripakynið muni verða kjarninn í kjötframleiðslunni næstu árin.

Allir sem þekkja framleiðsluferil nautgripakjöts gera sér grein fyrir því að þeir gripir koma nú til innleggs voru settir á töluvert áður en þessar breytingar áttu sér stað. Því er eðlilegt að verðskráin samkvæmt gamla matinu sé höfð til hliðsjónar á þeirri nýju, og ákaflega mikilvægt að verðfalli upp á 10-20% sé ekki skellt framan í bændur. Það gæti algjörlega snúist í höndunum á atvinnuveginum og orðið til þess að bændur sjái hreinlega ekki fram á að það sé hagur af því að setja aukin kraft í framleiðsluna og hverfi frá henni.

EUROP-matskerfið hefur þann kost að það auðveldar að taka smávægileg skref með hvötum til bænda um að framleiða vöru sem afurðarstöðvarnar vilja fá inn til sín, og þróa svo þá hvata eftir því sem framleiðslunni fer fram. En þessar tölur sem í greiningunni koma fram geta engan veginn kallast smávægilegar.

Þá vil ég að lokum koma inn á mál sem er kannski ekki efst á baugi um þessar, en má engu að síður ekki gleyma. Það er mikilvægt velferðarmál að allir íslenskir nautkálfar séu nýttir. Í Danmörku liggja samtök dýraverndunarsinna á hálsi kúabænda fyrir það að nautkálfar af Jersey kyni (smágert mjólkurkúakyn) eru yfirleitt sendir á vit feðra sinna fljótlega eftir að þeir koma í heiminn. Við hljótum að vilja að þetta verði ekki raunin hérlendis.

Axel Kárason
Framkvæmdastjóri LK