Verðlagning í skjóli mjólkur?
13.02.2007
Í Viðskiptablaðinu í dag er viðtal við Sigurð Jónsson framkvæmdastjóra Samtaka verslunar og þjónustu. Í viðtalinu segir Sigurður réttilega að útgjöld heimilanna vegna kaupa á mat og drykk fari sífellt lækkandi og sé nú svo komið að um 13% útgjaldanna fari í þann lið. Þar hefur mjólkurframleiðslan lagt sitt á vogarskálarnar með verðlækkun undanfarin ár, og verðstöðvun út yfirstandandi ár. Í niðurlagi viðtalsins fellur Sigurður hins vegar í þá gryfju að segja verið sé „að verðleggja aðrar vörur hærra“ í skjóli t.d. verðs á mjólk. Eins og myndin hér að neðan ber skýrt með sér, sést að þessi fullyrðing Sigurðar er hreinasta della. Verð á t.d. kolsýrðu vatni er tæplega tvöfalt hærra en á mjólk, svo fráleitt má telja að mjólkin sé notuð sem skjól í þeim efnum. Tölurnar á myndinn eru úr verðkönnun Capacent rannsókna á smásöluverði drykkjarvara hér á landi, frá 1. janúar til 10. september 2006.
Þessi sami Sigurður Jónsson sagði í síðdegisþætti Bylgjunnar í gær að verð á fatnaði væri sambærilegt hér á landi og í nágrannalöndunum. Samkvæmt Eurostat var verð á fötum og skóm 63,2% hærra en í löndum ESB árið 2005, sem er meiri munur en á verði matvæla hér og þar.