Beint í efni

Verðlækkun á nautakjöti þvert á öll markmið í framleiðslu

08.10.2016

í lok september boðaði Kaupfélag Skagfirðinga verðlækkun á nautakjöti frá og með 1. október. Í kjölfarið var tilkynnt að verðlækkun yrði einnig hjá sláturhúsinu á Hellu sem tæki gildi 10. október næstkomandi. Samkvæmt upplýsingum frá KS er um tímabundna lækkun að ræða sökum langra biðlista og samið hafi verið við vinnslurnar um að taka meira inn til sín þegar toppurinn er hvað mestur.

 

Stjórn Landssambands kúabænda sendi í kjölfarið áskorun á stjórn KS um að draga þessar lækkanir til baka. Á sama tíma og verðlækkanir eru boðaðar er innlend framleiðsla ekki að anna eftirspurn á innanlandsmarkaði og innflutningur á fyrstu 8 mánuðum ársins er 395 tonn af kjöti, á móti 695 tonnum á sama tíma í fyrra. Samkvæmt KS er framboðið nú nokkuð mikið en það er ekkert nýtt í þeim efnum, framboðið er ávallt mikið á þessum árstíma. Því er ekki að sjá nokkrar forsendur fyrir verðlækkun á markaði.

 

Í nýsamþykktum búvörusamningum er tekinn er upp stuðningur við framleiðslu á nautakjöti með nýjum hætti. Stuðningi til framleiðslu á nautakjöti verður ráðstafað annars vegar til einangrunarstöðvar vegna innflutnings á erfðaefni holdanautgripa og hins vegar til að greiða sláturálag á nautakjöt sem uppfyllir tilgreindar gæðakröfur. Þannig er verið að hvetja til aukinnar og bættrar framleiðslu en eins og staðan er í dag þyrfti framleiðsla á íslensku nautakjöti að aukast um fjórðung til að sinna innanlandsmarkaði. Stuðningur við nautakjötsframleiðslu mun byrja í 173 milljónum króna árið 2017 og mun svo rokka á bilinu 98-186 milljónir króna til ársins 2026. Þegar innanlandsmarkaður er að kalla eftir aukinni framleiðslu og stjórnvöld eru að hvetja til þess sama gengur þessi aðferðafræði KS því seint upp.

 

Ef rýnt er í verðbreytingarnar má sjá að verðlækkunin er ekki byggð upp á þann hátt að hún hvetji til aukinnar framleiðslu á gæðakjöti heldur er lækkunin þvert á flesta flokka nautakjöts. Því er auðséð að verðlækkun KS á nautakjöti gengur þvert á þá hvatningu til aukinnar og bættrar nautakjötsframleiðslu sem í nýjum samningi er að finna og sendir röng skilaboð til íslenskra bænda.

 

Árið 2015 voru lögð inn 3.600 tonn að verðmæti ca. 2,3 milljarðar. Síðustu 12 mánuði er innleggið komið í rúmlega 4.300 tonn og verðmætið komið í ca. 2,8 milljarða. Hvert prósent í verðlækkun myndi þýða 28 m.kr. tekjutap fyrir framleiðendur á ársgrundvelli. En verðlækkun upp á 1% þýðir væntanlega miklu meira en 1% lækkun á launalið bóndans.

 

Sala á nautakjöti hefur aukist um 27,9% milli ára. Á sama tíma hefur sæðingum fækkað allmikið milli ára og eru um 3.000 færri í ár samanborið við 2015. Einnig er samdráttur í ásetningi í hverjum mánuði ársins, miðað við árið á undan. Það er því erfitt að ímynda sér að áhugi sé hjá sláturleyfishöfum að sú þróun haldi áfram lengi enn, á meðan við erum ekki að sinna markaðnum sem skildi.

 

Glugginn fyrir innflutning á nautakjöti lokaðist í lok síðustu viku, á sama tíma og var í fyrra. Birgðarstaðan er því hærri á þessum tímapunkti en annars en ætla má að innflutningur það sem eftir er af árinu verði takmarkaður. Þá er vert að taka fram að innflutningur er ekki til þess hugsaður að koma í stað innlendrar framleiðslu, heldur til að mæta þörfum innanlandsmarkaðar.

 

Síðan má minna á ákvæði aðbúnaðarreglugerðar sem gerir stórauknar rýmiskröfur fyrir gripi í uppeldi. Það hljóta að vera sameiginlegir hagsmunir sláturleyfishafa og bænda, að þeim síðarnefndu verði gert kleyft að takast á við framtíðina í þeim efnum.

 

Sérstaða íslensks landbúnaðar er rík. Sýklalyfjanotkun er í lágmarki hér á landi, áburðamengun mælist ekki og miklar kröfur eru um aðbúnað og velferð dýra. Þessu megum við vera og erum stolt af. Með auknum stuðningi við nautakjötsframleiðslu munum við sjá enn betri vörur frá okkar framleiðendum í framtíðinni. Það er því í hag allra aðila, sláturleyfishafa, bænda og íslenskra neytenda, að við snúum bökum saman og vinnum að aukinni innlendri framleiðslu á gæðakjöti fyrir íslenska neytendur.

 

Reykjavík í október 2016

Margrét Gísladóttir