Beint í efni

Verðlækkun á korni loks í augsýn?

27.02.2013

Bandaríska landbúnaðarráðuneytið gaf út í liðinni viku framleiðsluspá fyrir maís og soja. Í spánni er ráðgert að það muni takast í ár að framleiða mun meira af þessum mikilvægu korntegundum en áður var talið. Alls telur ráðuneytið að framleiðsla bandarískra bænda á maís muni nema 14.350 milljón skeppur og 3.405 milljón skeppur af soja baunum. Til þess að setja þessar tölur í samhengi þá má geta þess að ein skeppa (bushel) er um 36,4 lítrar.
 
Þessi framleiðsluspá gerir ráð fyrir 35% framleiðsluaukningu á maís og 13% aukningu á soja og eru það afar gleðileg tíðindi fyrir kúabændur víða um heim enda er því jafnframt spáð að verð á maís muni falla um 33% næsta vetur og að soja lækki í verði um 27%. Þó svo að þetta sé einungis spá, þá byggir hún á afar sterkum grunni en er vissulega háð því að ekki verði verulegar breytingar á veðri frá liðnum sumrum/SS.