Verðkönnun á banönum
29.01.2016
Í fyrradag kom út skýrsla Bændasamtaka Íslands þar sem metnir eru ýmsir áhrifaþættir á matvælaverð. Í framhaldi af útkomu skýrslunnar hefur spunnist talsverð umræða um efni hennar og hlut verslunar í matvælaverði og álagningu hennar, m.a. á drykkjarmjólk. Í tilefni þessari umræðu gerði Landssamband kúabænda verðkönnun á banönum, en neysla á þeim gómsæta ávexti fer að margra mati vel saman með ýmsum mjólkurafurðum á borð við súrmjólk, jógúrt og ís.
Keyptir voru bananar frá hinum þekkta framleiðanda Chiquita, annars vegar í verslun Bónus í Kringlunni og hins vegar í Hagkaup, í sömu verslunarmiðstöð. Eins og sjá má á meðfylgjandi myndum kostaði 1 kg af banönum 259 kr í Bónus, en 414 kr þurfti að greiða fyrir 1 kg í Hagkaup, verðmunurinn er tæp 60%.
Samkvæmt nýjustu upplýsingum frá Hagstofu Íslands, var CIF-verð á banönum um 114 kr/kg í desember sl. Eins og sjá má í töflunni hér neðst í fréttinni, hefur innkaupsverð banana farið örlítið lækkandi undanfarna mánuði.
Líkt og aðrar matvörur bera bananar 11% virðisaukaskatt. Að honum frádregnum, hækka bananarnir í verði um rúmlega 100% á leið sinni úr Sundahöfn í Bónus í Kringlunni, en um ríflega 220% á leið í Hagkaup.
Í ítarlegri verðlagskönnun ASÍ, frá 5. október sl. kom fram að bananar voru þá ódýrastir í verslunum Iceland, 189 kr/kg. Verðið í Hagkaup og Bónus var þá það sama og nú; 414 kr/kg og 259 kr/kg. Í Krónunni kostuðu þeir 269 kr/kg, 279 í Nettó, 269 í Fjarðarkaup, 389 í Samkaup-Úrval og 389 í Víði.
Innflutningsverð á banönum er rúmlega 100 kr/kg, algengt smásöluverð er hins vegar á bilinu 200-400 kr/kg. Hver skyldi vera hlutur bananabóndans í Costa Rica í því verði?/BHB
Upplýsingar frá Hagstofu Íslands um magn og innflutningsverð á banönum 2015.