Verðhrun á kvótamarkaði í Danmörku
06.02.2008
Bráðabirgðaverð á kvótamarkaði í Danmörku liggur nú fyrir. Jafnvægisverðið liggur á bilinu 1,99-2,04 DKK á kg mjólkur, m.v. 4,36% fitu. Það er 80 dönskum aurum lægra en á markaðnum í nóvember, jafngildir þetta um 28% verðlækkun. Þá eru ekki nema 6 mánuðir síðan kvótaverð þar í landi var það hæsta nokkru sinni, verð á ágústmarkaði var 4,63 DKK. Kvótaverðið núna sem hlutfall af afurðaverði er um 0,67.
Væntingar voru uppi um að verðið myndi lækka á markaðnum núna í febrúar, þar sem umræða um niðurlagningu kvótakerfisins í fyrirsjáanlegri framtíð er hávær, einnig verður landskvóti hvers af aðildarlöndum ESB aukinn frá og með 1. apríl n.k.
Magnið sem umsett verður núna í mánuðinum, er aðeins rúmlega helmingur af því sem skipti um eigendur á febrúarmarkaði fyrir ári síðan, 67.000 tonn á móti 127.000 tonnum fyrir ári. Á sama tíma hefur verðið lækkað um nálega 50%.