Beint í efni

Verðhækkun hjá Líflandi

21.06.2006

Lífland hefur fylgt strax í kjölfar Fóðurblöndunnar og hækkar verð á kjarnfóðri um 4,5% frá og með deginum í dag.  Verð á ódýrustu kúafóðurblöndum fyrirtækisins er nú rétt tæpar 37 kr/kg, án afsláttar. Ástæða hækkunarinnar er sögð vera breyting á gengi íslensku krónunnar. Fyrirtækin tvö hafa verið ákaflega samstíga í verðhækkunum frá því í mars. Þegar Lífland hækkaði síðast stóð gengisvísitalan í 128 en við lokun markaða í dag var hún 129,9. Það er hækkun um 1,5%.

Hækkun kjarnfóðurverðs það sem af er þessu ári er yfir 15%. Þá hefur sala á kjarnfóðri aukist um ríflega 20%. Aukningin ein og sér ætti að koma vel á móti kostnaðarhækkunum, með verulega bættri nýtingu fastafjármuna. Það er því ljóst að það hefur þótt mál til komið að huga að eiginfjárstöðu fyrirtækjanna.