Beint í efni

Verðhækkun á umframmjólk frá 1. september

25.08.2011

Stjórn Auðhumlu svf. hefur ákveðið, í ljósi hagfelldra aðstæðna á útflutningsmörkuðum, að hækka verð á mjólk umfram greiðslumark sem fer til útflutnings. Fyrir fyrstu 2% umfram greiðslumarkið verða greiddar 50 kr/ltr og 40 kr/ltr fyrir allt umfram þau 2%. Síðustu 12 mánuði (júlí 2010-júní 2011) nam framleiðslan innanlands 122,2 milljónum lítra. Sala á próteingrunni var 114,8 milljónir lítra en 111 milljónir lítra á fitugrunni. Því þarf að flytja út prótein úr 7,8 milljónum lítra og fitu úr 11,2 milljónum lítra. Mest af próteininu er flutt út í formi undanrennudufts en einnig í nokkrum mæli sem skyr. Salan á skyrinu er stöðug í Bandaríkjunum og fer mjög vel af stað í Finnlandi.

Skilaverðið á skyrinu er gott, heimsmarkaðsverð á undanrennudufti fór hækkandi framan af ári, en hefur heldur verið að gefa eftir að undanförnu. Í sögulegu samhengi er núverandi heimsmarkaðsverð mjög hátt. Fitan er nær öll flutt út í formi smjörs, heimsmarkaðsverðið á því hefur haldist hátt nær allt þetta ár og er í sögulegu samhengi eitthvað það hæsta sem sést hefur. Fyrir þessa breytingu var verð á mjólk umfram greiðslumark 45 kr/ltr fyrir fyrstu 2% umfram greiðslumarkið og 37 kr/ltr fyrir allt umfram það./BHB

 

Heimsmarkaðsverð á smjöri 1989-2011

Heimsmarkaðsverð á undanrennudufti 1989-2011

 

Heimild: Dairy Industry Newsletter