Beint í efni

Verðhækkanir á breska markaðinum

25.09.2012

Það fór vart fram hjá neinum að breskir kúabændur stóðu fyrir fjöldamótmælum þegar allar stærstu afurðastöðvarnar höfðu tilkynnt um lækkun á afurðastöðvaverði í ágúst sl. Allar afurðastöðvarnar drógu til baka ákvarðanir um lækkun afurðastöðvaverðs og nú hefur félagið First Milk tilkynnt um hækkun afurðastöðvaverðs 1. október nk. Það eru hækkanir á heimsmarkaði á ný sem hafa þessi áhrif og hefur félagið lofað því að þetta verð haldi amk. út nóvember.

 

Afurðastöðvaverðið verður nú 57,30 íkr./líter fyrir þá kúabændur sem eru með fasta samninga við First Milk en þar sem breska kerfið er all fjölbreytt geta bændur einnig verið með samninga til skemmri tíma. Afurðastöðvaverð mjólkurt til þeirra bænda fer í 54,70 íkr/líter. Fyrr í mánuðinum gaf félagið Robert Wiseman Dairies (RWD) út að félagið myndi hækka verð til bænda 15. október og boðaði þá afurðastöðvaverð upp á 59,0 krónur pr. líter. Væntanlega fylgja fleiri afurðastöðvar í kjölfarið og hækka verð til bænda enda hafa þeir sýnt að þeir hika ekki við að fara í aðgerðir gegn þeim sem ekki greiða sanngjarnt verð fyrir hrámjólkina/SS.