Verðbreytingar hjá Líflandi hf
20.08.2009
Fyrir síðustu helgi tilkynnti Lífland hf um allt að 4% hækkun á kjarnfóðri. Samkvæmt heimildum LK um verðþróun hráefna á erlendum mörkuðum taldi undirritaður að ekki væri ástæða til hækkunar á fóðri og skoraði á fyrirtækið að draga hana til baka. Þá kom Lífland með málefnalega greinargerð um stöðu á hráefnamarkaði. Þegar farið er yfir nýjasta verðlistann á fóðri, sést að listaverð á flestum kjarnfóðurblöndum Líflands fyrir nautgripi hækkar ekkert, þó hækka þær próteinríkustu um 1-1,5%. Hins vegar hækkar magnafsláttur, ef keypt eru 3 tonn eða meira úr 3% í 4% og staðgreiðsluafsláttur, ef keypt eru 3 tonn eða meira, úr 4% í 5%. Niðurstaðan er því sú að fyrir allflesta viðskiptamenn Líflands, sem nýta bæði magn- og staðgreiðsluafslátt, lækkar fóðurverðið um 0,7-2,2%, eða á bilinu 514-1.587 kr pr. tonn. Þeirri lækkun ber að fagna.
Í þessu samhengi skal einnig bent á að Búnaðarsamband Suðurlands birti í gær mjög villandi samanburð á fóðurverði, þar sem borið er saman verð á jurtapróteinblöndum SS og fiskipróteinblöndum FB og Líflands. Slíkt ber að átelja. Það er alkunna að öll fyrirtækin bjóða upp á kúakjarnfóður með jurtapróteini og því eðlilegt að verð á þeim blöndum sé borið saman. Þannig er verð á tonni af 16% jurtapróteinblöndu, með magn- og staðgreiðsluafslætti, 55.619 kr hjá Fóðurblöndunni, 55.778 kr hjá Líflandi og 57.408 kr hjá SS. Hjá Bústólpa á Akureyri kostar tonnið af hliðstæðri blöndu 56.245. SS hækkaði verðið 1. júlí sl. um 3,8-5,7%.