Beint í efni

Verðbreytingar hjá B. Jensen

30.11.2020

Á morgun, þriðjudaginn 1. desember 2020, tekur ný verðskrá gildi hjá B. Jensen sláturhúsinu á Akureyri. Helstu breytingar eru þær að lökustu flokkar UN, KU og K flokka lækka mest en betri flokkar sömu gripa hækka.  Mest er verðlækkunin rúm 20% hjá P- kúm (K) en mesta hækkunin 12,5% hjá U kúm og 9,7% í R+ kúm.  Hjá UN lækka allir flokkar O og undir en O+ og yfir hækka, bæði undir 250 kg. og yfir 250 kg. Sömu sögu er að segja með ungar kýr, nema þar stendur O flokkur í stað, meðan O- og lakar lækkar örlítið í verði og O+ og betra hækkar í verði.  Naut standa í stað.

Þá taka skerðingar fyrir fitufellingu einnig breytingum.  Verðfelling fyrir 1- hækkar um 20 krónur, úr -40 í -60 krónur, 1 fer úr -20 í -40 krónur. 1+, sem áður var ekki með skerðingu, er nú -20kr og 2- sem var heldur ekki með skerðingu áður fer í -10kr.  Þá hækkar fituflokkur 4 úr -50 í -60 kr skerðingu, 4+ úr 60 í -80 kr. Skerðingu og í fituflokki 5 tvöfaldast skerðingin, fer úr -60 í -120kr.

Miðað við verðskrá B. Jensen frá því í febrúar 2020 er þróunin svona:

  • UN <250 kg = -8,6% lækkun – 1,2% hækkun
  • UN >250 Kg = -2,1% lækkun – 1,4% hækkun
  • KU <200 kg = -3,8% lækkun – 3,8% hækkun
  • KU >200 kg = -3,1% lækkun – 3% hækkun
  • K <200 kg = -20,8% lækkun – 5,7% hækkun
  • K <200 kg = -11% lækkun – 12,5% hækkun

Í tilkynningu frá fyrirtækinu segir að töluverð fyrirspurn hafi verið eftir bestu flokkunum frá veitingastöðum sem hafi mikinn áhuga á íslenkri vöru. Hafi því verið ákveðið að hækka bestu flokkana til að fá nýja innleggjendur með góða gripi til að svara eftirspurninni.

Þetta er fimmta verðskrárbreyting sláturleyfishafa frá því í september.  Eftir nánast undantekningarlausar lækkanir sl. ár eru nú að koma fram vísbendingar um að sláturleyfishafar séu að teygja verðskrár í sundur, með því að lækka lakari flokka og hækka verð á betri flokkum.  Slíkt mætti túlka sem skýra ábendingu um eftir hverju er eftirspurn og er vert fyrir bændur að skoða framleiðsluáætlanir sínar í því ljósi.

Búið er að uppfæra verðskrár sláturleyfishafa hér á naut.is og hægt er að nálgast þær undir Markaðsmál & verðlistar á forsíðu naut.is eða með því að smella hér. Hvetjum við bændur nú sem áður til að skoða verðskrárnar vel og bera saman þau kjör sem í boði eru. /HS