Beint í efni

Verða sett höft á sölu greiðslumarks?

26.03.2010

Jón Bjarnason, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, ávarpaði aðalfund LK í dag. Í ávarpi sínu kom hann inn á ýmsa þætti í íslenskri nautgriparækt. Varðandi skuldamál kúabænda sagði hann m.a.:

„Ég get ekki leynt því, að ég óttast að í ákveðnum tilfellum komi þær aðstæður upp, að einhverjir kúabændur lendi í þroti.  Ef slíkt kæmi til hefði það að sjálfsögðu í för með sér mikla röskun á högum þessara bænda og fjölskyldna þeirra. Í þannig tilfellum koma einnig fram mörg álitamál varðandi það greiðslumark sem tilheyrir slíku búi. Ef það greiðslumark fer burt af jörðinni eða úr byggðarlaginu getur það leitt til mjög óheppilegrar röskunar eða samþjöppunar sem sumum finnst nóg komið að.

 

Ég hef svo sannarlega því velt því fyrir mér hvort rétt sé og þá hvernig  stjórnvöld geti grípið inn  í þessa atburðarás. Ef það yrði gert mætti hugsa sér að lögbinda ákvæði þess efnis að binda framsali greiðslumarks a.m.k. tímabundið ákveðnum skilyrðum og t.d. ákveða að óheimilt væri að framselja eða ráðstafa með öðrum hætti greiðslumarki mjólkur úr einstökum sveitarfélögum eða byggðalögum, sem tilheyra gjaldþroti einstaklinga eða fyrirtækja sem hafa fengið heimild til greiðslustöðvunar.“

 

Ræða ráðherra er hér í heild sinni.

 

Ávarp Jóns Bjarnasonar sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra við setningu aðalfundar Landsambands kúabænda 26. mars 2010, haldinn á Hótel Sögu.

 

Ágætu aðalfundarfulltrúar,

 

Skömmu eftir að síðsti aðalfundur LK sem haldinn var fyrir ári síðan, nánar tiltekið í apríl, gekk þáverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, Steingrímur J. Sigfússon frá breytingum á gildandi búvörusamningum milli ríkisins og bænda. Með þessum breytingum tókst að eyða þeirri óvissu og þeim ágreiningi sem upp var kominn milli samningsaðila. Í stuttu máli fólst samkomulagið í því að gildandi samningar um sauðfé og mjólk, voru framlengdir um tvö ár. Þá var samið sérstaklega um meðferð verðbóta. Mjólkursamningurinn var þó framlengdur um 28 mánuði eða til ársloka 2014. Þetta ver gert m.a. í þeim tilgangi að miða við „almanaksár“ í  stað „verðlagsárs“.

 

Þá vil ég einnig nefna samþykkt matvælafrumvarpsins svo kallaðs á sl liðnu haustþingi. Þar tókst ekki síst fyrir  baráttu samtaka bænda, afurðastöðva, félagasamtaka og fjölda  einstaklinga að fá góða samstöðu um það á Alþingi að viðhalda banni á innflutningi á  hráum ófrosnum kjötvörum.

 

Þið þekkið sjónarmið mín  varðandi umsóknina um aðild að  ESB  og þau fara saman við stefnu Bændasamtakanna í þeim efnum. Að öðru leyti geri ég ekki þetta mál að umtalsefni hér.

 

 Mikil þróun og  breytingar hafa orðið í íslenskum landbúnaði á undanförnum árum og þar hafa kúabændur ekki látið sitt eftir liggja. Þörf var orðin á endurnýjum fjósa og bættum aðbúnaði bæði fyrir menn og skepnur. Sumir bændur hafa komist vel frá þessum fjárfestingum þrátt fyrir háa vexti og erlendar lántökur. Hins vegar er  hópur bænda sem eiga í miklum erfiðleikum og ekki er fyrirséð hvernig þeim málalokum lyktar.

 

Ráðuneytið hefur átt marga fundi með bönkunum og Bændasamtökunum til að fara yfirmál þessara bænda og leitast við að finna almennar leiðir sem mættu koma til aðstoðar. Það er þó ljóst að ráðuneytið getur ekki fjallað um einstök mál, eða komið að úrlausn þeirra. Ég get ekki leynt því, að ég óttast að í ákveðnum tilfellum komi þær aðstæður upp, að einhverjir kúabændur lendi í þroti.  Ef slíkt kæmi til hefði það að sjálfsögðu í för með sér mikla röskun á högum þessara bænda og fjölskyldna þeirra. Í þannig tilfellum koma einnig fram mörg álitamál varðandi það greiðslumark sem tilheyrir slíku búi. Ef það greiðslumark fer burt af jörðinni eða úr byggðarlaginu getur það leitt til mjög óheppilegrar röskunar eða samþjöppunar sem sumum finnst nóg komið að.

 

Ég hef svo sannarlega því velt því fyrir mér hvort rétt sé og þá hvernig  stjórnvöld geti grípið inn  í þessa atburðarás. Ef það yrði gert mætti hugsa sér að lögbinda ákvæði þess efnis að binda framsali greiðslumarks a.m.k. tímabundið ákveðnum skilyrðum og t.d. ákveða að óheimilt væri að framselja eða ráðstafa með öðrum hætti greiðslumarki mjólkur úr einstökum sveitarfélögum eða byggðalögum, sem tilheyra gjaldþroti einstaklinga eða fyrirtækja sem hafa fengið heimild til greiðslustöðvunar.

 

Hliðstæð lagasetning um sjávarútveg  varðandi takmörkun á flutningi afheimilda  úr byggðarlögum  er nú í meðferð Alþingis.

 

Það eru fullkomlega afbrigðilegar aðstæður í samfélaginu og fjármálakreppunnar mega ekki verða til þess að kollvarpa atvinnu- og byggðinnviðunum í landinu eða stefna framtíðar  fæðuöryggi þjóðarinnar í óvissu

 

Í annan stað finnst mér geta komið til greina að setja a.m.k. tímabundið hámark á það hvað auka má við greiðslumark á hverju búi eða jafnvel stöðva viðskipti með greiðslumark mjólkur meðan kannaður er grundvöllur þess að koma upp miðlægum kvótamarkaði, og vísa ég þá til bókunar, sem gerð var við undirritun mjólkursamningsins 2004. Hér kemur einnig til grundvallarspurningin hvað viljum við hafa mikla samþjöppun í þessari grein og eiga beingreiðslur að renna óskertar til allra bústærða. Þetta þurfa ykkar samtök m.a. að hugleiða og að þessu vík ég síðar í ræðunni. Í öllum þessum tilvikum þyrfti ný lagasetning að koma til, en svona aðgerðir gætu spornað við alvarlegri röskun innan greinarinnar á þessum erfiðleikatíma.

 

Én tek ítrekað fram hér að ekki verður gripið til neinna aðgerða af þessu taginu án samráðs við samtök bænda.

 

Ýmsir hafa í gegnum tíðina gagnrýnt „landbúnaðarkerfið“ og m.a. mjólkuriðnaðinn og löggjöf hans. Engin kerfi eru fullkomin og þá ekki landbúnaðarkerfið heldur. Við verðum samt að hafa það hugfast að við þurfum að tryggja bændum viðunandi afkomu, tryggja búsetu og stuðla að fæðu- og  matvælaöryggi hér á landi.  Þegar að við skoðum landbúnaðarkerfið núna eftir kreppu þá er vert  að velta því fyrir sér hvernig staðan hefði verið ef þessa  félagslega kerfis hefði ekki notið við. Ég ætla að láta ykkur það eftir að velta vöngum yfir því en mér sýnist svarið liggja í augum uppi. En þetta var og er ekki sjálfgefið. Það gat alveg eins farið þannig að  spurningin snerist aðeins um það hvað fyrirtækið héti sem átt hefði þetta allt saman – Baugur, Gaumur eða Glaumur. Í staðinn, vegna þess að þessi leið var ekki farin,  höfum við ennþá afurðastöðvar í félagslegri eigu og framleidd er gæðavara. Neyslan hefur haldist stöðug og þó ætíð séu einhverjir erfiðleikar allstaðar, sem ég vík að síðar, þá eru þeir að mínu mati vel yfirstíganlegir og við munum komast út úr þeim í krafti samstöðu og félagshyggju.

 

Landbúnaðarkerfið verður hins vegar ætíð að gæta þess að vera í sátt við sína þjóð. Og nýjustu skoðanakannanir og umræðan í samfélaginu að mikil sátt er um landbúnaðinn og verkefni og ábyrgð hans. Það er samt heldur ekki sjálfgefið eins og umræðan um aðra  mikilvæga atvinnuvegi þjóðarinnar þessa dagana staðfestir.  Mér er það einnig  ljóst að forsvarsmenn ykkar og stéttin í heild  er sér meðvituð um mikilvægi þeirrar sáttar og ánægju sem þjóðin sýnir landbúnaðinum.

 

Mjólkurframleiðendur á landinu eru nú 694 talsins sem er svipuð tala og árið áður, og því greinilegt að hægt hefur á þeirri fækkun sem verið hefur undanfarin ár. Það er þó ekki ólíklegt að framleiðendum muni fækka eitthvað á næstu 2-3 árum. Ekki er óeðlilegt að staldrað sé við undir svona kringumstæðum og menn velti því fyrir sér, hvernig við viljum að þessi þróun haldi áfram og hvort ekki sé í öllum aðalatriðum nóg komið. Hvaða bú voru annars viðkvæmust þegar að kreppan skall á. Þarf ég nokkuð að segja ykkur það hér?

 

Spurningin er hvort við eigum  að láta þróunina  afskiptalausa og lúta afbrigðilegum aðstæðum eða eigum við að hafa uppi einhverja skilgreinda skoðun eða stefnu? Er það eðlilegt eða æskilegt að búum fækki niður í t.d. 3-400? Fyrir liggur að ástæða þess að við styðjum öll íslenska mjólkurframleiðslu á sjálfbærum grunni. Hún er grunnur að fæðuöryggi þjóðarinnar, hollustu afurðana og það að við viljum hafa byggð í öllu landinu. Einn af hornsteinum þessa er fjölskyldueiningin þar sem saman fer vel rekin eining af viðráðanlegri stærð og aðbúnaður dýranna er manneskjulegur og annað í lagi að öðru leyti. Ég er hreint ekki viss um að risastórar iðnaðareiningar falli undir þessa skilgreiningu.

 

Talsmenn kúabænda hafa vakið athygli á að ýta þurfi áfram vinnu við að koma á skipulagi í sjúkdómaskráningu fyrir nautgripi. Ráðuneytið hefur rætt þetta mál við Matvælastofnun og fengið vissu fyrir því að vinna við skráningakerfið njóti nú forgangs og það muni verða starfhæft fyrir haustið.

 

Kúabændur hafa farið þess á leit við mig að láta fara fram endurskoðun á reglugerð um aðbúnað nautripa. Ég vil nota þetta tækifæri og upplýsa að ég hef nú ákveðið að setja á fót starfshóp til að taka þetta mál til umfjöllunar og óskað eftir tilnefningum í starfshópinn í samræmi við tillögur LK þar um.

 

Örar breytingar hafa einnig orðið innan mjólkuriðnaðarins á síðustu árum, en leytast hefur verið við að ná fram sem mestri hagræðingu og lækkun tilkostnaðar. Mér er t.d. kunnugt um að störfum í mjólkuriðnaðinum hefur fækkað u.þ.b. eitthundrað eða um 18% frá árinu 2007. Þrátt fyrir þessa miklu hagræðingu hefur iðnaðurinn verið rekinn með tapi síðustu tvö ár, þó svo að vonir standi til að jafnvægi náist á yfirstandandi ári. Við munum hins vegar komast úr úr þessum erfiðleikum eins og ég áður gat.

 

Að lokum vill ég geta hinna smáu sprota. Við verðum að rækta þá líka því í því eru einnig heilmiklir möguleikar ef betur er að gáð. Mín skoðun er sú að framtak m.a. beint frá býli og annarra í slíkri stöðu verðum við að styðja af öllum mætti. Þessi framleiðsla er að mínu viti hrein viðbót við markaðinn og engin ástæða er að óttast samkeppni af hennar völdum. Hún gerir ekkert annað en bæta ímynd landbúnaðarins enn frekar í augum þjóðarinnar. Minni ég einnig á fjölþætta ferðaþjónustu sem m.a. byggir á þessum heimaframleiddu afurðum í þessu sambandi.

 

Góðir aðalfundarfulltrúar,

Fæðuöryggi er orð sem gjarnan gleymist á tímum góðæris, en núna göngum við Íslendingar í gegnum afleiðingar bankakreppu og þurfum þar af leiðandi að endurskoða og endurmeta margt sem áður þótti sjálfsagt og jafnvel eðlilegt í  okkar góða samfélagi. Við þessar þrengingar hefur landsmönnum orðið æ ljósara mikilvægi íslensks landbúnaðar og hversu mikilvægu hlutverki hann hefur að gegna í fæðuöryggi þjóðarinnar.  Ég spyr hvaða vit er í að treysta á óheftann innflutning, eða höfum við nægan gjaldeyri til að standa undir þannig útlátum og hvar standa þá „hagvarnir“ i landinu? Nei, Íslendingar vilja íslenskar afurðir, því er mikilvægt að íslenskur landbúnaður fái að þróast og dafna á komandi árum.

 

Ég óska aðalfundinum velfarnaðar í störfum sínum.