Verð íslenskra vara lægra en flesta grunar!
07.09.2004
Samanlagt meðalverð íslenskra vara í verðkönnun sem gerð var fyrir Samtök iðnaðarins (SI) í fjórum verslunum á höfuðborgarsvæðinu 22. júlí síðastliðinn, reyndist 10,3% lægra en í sambærilegri erlendri körfu, að því er fram kemur á vef mbl.is. Niðurstaðan er athyglisverð í ljósi niðurstaðna könnunar IMG Gallups fyrir Samtök iðnaðarins frá í vor þar sem 83,7% töldu verð íslenskra matvara almennt hærra en á hliðstæðum erlendum matvörum.
Í tilkynningu frá SI stendur: „Verðkönnun SI var gerð í verslunum Hagkaupa, Nóatúns, Fjarðarkaupa og Samkaupa. Valdar voru almennar neysluvörur til heimilisnota í ýmsum vöruflokkum og þess vandlega gætt að velja eins sambærilegar vörur og kostur var. Reiknað var meðalverð hverrar vöru í verslununum fjórum. Þegar um þyngdarmun eða mismunandi magn var að ræða var verð varanna umreiknað til að það yrði samanburðarhæft“. Fram kemur að kannað hafi verið verð á 23 vörutegundum og hafi meðalverð íslensku varanna reynst lægra í 13 tilvikum.
Smelltu hér til að sjá frétt mbl.is í heild