
Verð á umframmjólk hækkar
05.08.2022
Stjórn Auðhumlu tilkynnti í gær að á fundi stjórnarinnar þann 3. ágúst 2022 s.l. var ákveðið að afurðarstöðvarverð fyrir umframmjólk hækki í 100 krónur á hvern innlagðan líter. Tekur þessi breyting gildi 1. ágúst 2022 og mun verðið gilda þangað til annað verður ákveðið, en það mun ekki lækka á yfirstandandi verðlagsári. Út frá þessu verði verður síðan reiknað gæðaálag, verðfellingar og efnainnihald. Uppbætur verði greiddar eftir að lokauppgjör ársins hefur farið fram, ef tilefni gefur til.
Í tilkynningunni kemur einnig fram að innlögð mjólk fyrstu 7 mánuði ársins er 1,9 milljónum lítra minni en á síðasta ári eða um 2,1%. Telur stjórn Auðhumlu að auknar líkur séu á meiri útjöfnun í ár, þar sem ónotað greiðslumarks er meira nú en á sama tíma í fyrra og því full ástæða til að hvetja bændur til aukinnar framleiðslu.