Beint í efni

Verð á kvóta í Danmörku lækkar!

21.11.2001

Á mánudaginn sl. var gefið út nýtt verð fyrir kvótaviðskipti í Danmörku, en þar í landi er starfrækt kvótaþing þar sem bændur bjóða til sölu kvóta og geta keypt. Kvótamarkaðurinn vinnur út frá sk. jafnvægisverði greiðslumarks, en það verð er fundið með því að meta saman öll sölu- og kauptilboð og þá fundið meðalverð út frá innsendum tilboðum.

 

Nóvemberverðið er nú 3,60 Dkr. sem er nálægt því að vera 1,5 sinnum hærra en það verð sem danskir bændur fá fyrir hvert kg. mjólkur. Fyrr á árinu var verðið 4,16 Dkr., svo að verðið hefur nú lækkað um u.þ.b. 15%.

 

Að þessu sinni óskuðu 1.700 bændur eftir að selja 470 milljónir kg. og samsvarar það því að fimmti hver bóndi í Danmörku vill selja hluta af sínu greiðslumarki. Á sama tíma óskuðu um 2.500 bændur eftir að kaupa greiðslumark.

 

Ástæður verðlækkunar á greiðslumarkinu eru m.a. mikið framboð á kvóta og einnig að fyrningartími er stuttur, en í Danmörku er miðað við að greiðslumark sé að fullu fyrnt árið 2008 þar sem ráðgert er að fella niður greiðslumark frá þeim tíma.

 

Um niðurfellingu greiðslumarks innan Evrópusambandsins eru þó mjög skiptar skoðanir og telja margir að greiðslumark í mjólk innan Evrópusambandsins verði áfram við lýði eftir árið 2008.

 

Heildargreiðslumark mjólkur innan Evrópusambandsins er í dag 120 milljón tonn, en til samanburðar má geta þess að greiðslumarkið á Íslandi svarar til 0,087% af greiðslumarki Evrópusambandsins.