Verð á blöndum hefur hækkað hraðar en verð á hráefnum
07.03.2007
Á síðasta ári voru flutt inn 20.744 tonn af maís til fóðurgerðar, verðmæti hans á hafnarbakka hér á landi var 271,5 milljónir eða 13,77 kr/kg. Af fóðurbyggi voru flutt inn 10.538 tonn fyrir tæpar 142 milljónir, verð pr. kg var því 12,96 kr. Af hveiti voru flutt inn 11.400 tonn fyrir 170 milljónir, meðalverð á kíló var 13,27 kr. Verð á fiskimjöli hefur verið mjög hátt en stöðugt síðustu misseri, um 104 kr/kg. Samsetning 16% blöndu er ca. þannig að 60-70% er maís, 10-12% bygg, 8-10% fiskimjöl, 2-3% hveiti og afgangurinn er vítamín, steinefni, melassi og fleira.
Sé ein ákveðin blanda tekin fyrir, má sjá að hráefnisverð í hana (maís, bygg, fiskimjöl og hveiti) var að meðaltali 20,63 kr á síðasta ári. Framantalin hráefni eru 89% af blöndunni. Blöndurnar hafa hækkað nokkuð hraðar en hráefnin, ca. 60-65 aura á mánuði á kg, meðan bygg hefur hækkað um 34 aura, maís um 29 aura og hveiti um 60 aura pr. kg á mánuði. Eins og að framan greinir er maísinn langsamlega stærsta hráefnið í blöndunum en hefur hækkað helmingi hægar en blöndurnar. Það er því ljóst að álagning kjarnfóðurframleiðenda hefur aukist, enda er samkeppni á þessum markaði lítil sem engin.